„Þetta er óskaplega viðkvæmt“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru ýmis atriði sem ekki hefur verið hægt að leysa á undanförnum árum og áratugum þannig að ég tel að það sé alveg rétt hjá forsætisráðherra að það þurfi að leggja nýjan grunn að þessu. Menn eru að fikra sig í áttina að því en þetta er óskaplega viðkvæmt. Það er kallað eftir breytingum og á meðan þetta samtal heldur áfram þá er einhver von um að það sé hægt að byggja þessar brýr og sú vinna er bara í gangi.“

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í samtölum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stöðuna í kjaramálum. Gylfi bendir á að ekki hafi verið vilji til þess af hálfu ASÍ eða annarra samtaka að halda samtali við stjórnvöld áfram nema tekið væri annars vegar á kjararáði og hins vegar félagslegum stöðugleika. Spurður hverju steyti á segir Gylfi ótímabært að tjá sig um það.

Frétt mbl.is: Vilja hefja samtal við vinnumarkaðinn á nýjum grunni

„Menn eru hins vegar sammála um að það sé ekkert óskaplega langur tími fyrir hendi. Menn hafa tíma svona fram í byrjun febrúar. Það er ljóst að í febrúar þarf Alþýðusambandshópurinn einfaldlega að taka afstöðu til þess með hvaða hætti hann sér fyrir sér að gildandi kjarasamningar þróist og ég held að það sé nokkur meðvitund um það í þessu samtali. Á sama tíma eru bæði háskólamenn og kennarar að semja,“ segir Gylfi.

Fyrir vikið séu fyrir hendi bæði þröngar og erfiðar aðstæður, engin launung sé á því. Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að samtal við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda skili árangri segir Gylfi: „Auðvitað verður maður að vera bara jákvæður, maður væri ekki að taka þessi samtöl ef maður hefði ekki einhverja trú á því að hægt væri að finna út úr þessu. Að sama skapi er maður meðvitaður um að þetta er mjög erfitt á báða bóga.“

Þannig sé mjög stíf staða innan raða ASÍ og annarra samtaka aðila vinnumarkaðarins vegna vonbrigða með fyrri aðkomu stjórnvalda. Á sama tíma geti verið erfitt fyrir stjórnvöld að taka á þeim málum sem þurfi að taka á. Það þurfi að gefa þessu öllu tíma. „Ég held að allir aðilar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að finna niðurstöðu en hvort það tekst verður að fá að koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert