Andlát: Vilhjálmur Grímur Skúlason

Vilhjálmur Grímur Skúlason.
Vilhjálmur Grímur Skúlason.

Vilhjálmur Grímur Skúlason, lyfjafræðingur og prófessor emeritus, lést á Landspítala við Hringbraut fimmtudaginn 11. janúar sl. 90 ára að aldri.

Vilhjálmur fæddist í Vestmannaeyjum þann 30. maí 1927, sonur hjónanna Skúla Grímssonar sjómanns, og Karólínu M. Hafliðadóttur ljósmóður. Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1949 og hóf eftir það nám við Lyfjafræðingaskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám við University of North Carolina þaðan sem hann lauk doktorsprófi í lyfjafræði 1964.

Vilhjálmur var lyfjafræðingur í Hafnarfjarðar Apóteki 1954-1959 og 1963-1964. Hann var starfsmaður lyfjaskrárnefndar 1964-1967 og sérfræðingur á efnafræðistofu raunvísindadeildar Háskólans 1967-1969. Skipaður dósent við HÍ 1969 og gegndi því starfi til 1972 er hann var skipaður prófessor í lyfjaefnafræði og lyfjagerðarfræði. Þá var hann forstöðumaður rannsóknastofu í lyfjafræði lyfsala 1972-1997.

Vilhjálmur tók virkan þátt í félagsstörfum. Hann var m.a. formaður ÍBH, LFÍ og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Hann var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði fyrir Félag óháðra borgara, fyrst 1966-1978 og síðan 1982-1986 þegar hann var formaður bæjarráðs. Vilhjálmur var heiðursfélagi bæði LFÍ og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar.

Vilhjálmur fékkst mikið við ritstörf alveg fram á síðasta dag og eftir hann liggja ýmsar greinar og bækur. Einnig hafði hann mikinn áhuga á tónlist og skrifaði bók um tónskáldið Guiseppe Verdi, sem heitir Meistarinn frá Le Roncole.

Vilhjálmur var kvæntur Kristínu Guðrúnu Gísladóttur. Hún lést 1996. Dóttir þeirra er Karólína Margrét. Stjúpsonur Vilhjálms var Gísli Eiríksson. Árið 1998 kynntist Vilhjálmur Þórunni Óskarsdóttur og lágu leiðir þeirra saman þar til hún lést árið 2016.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert