Hvassviðri og snjóflóðahætta

Spáin er slæm fyrir stóran hluta landsins í dag.
Spáin er slæm fyrir stóran hluta landsins í dag. mbl.is/Rax

Spáð er norðaustan hvassviðri eða stormi með snjókomu, hvassast norðan- og vestan til, en úrkomumest norðan- og austanlands. Einnig má búast við mjög hvössum vindhviðum undir Vatnajökli þegar kemur fram á daginn einkum austur af Öræfum.

Þetta kemur fram í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands en gul viðvörun gildir fyrir Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði og Suðausturland.

Vegirnir um Öxnadalsheiði og Víkurskarð eru lokaðir, einnig er lokað yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að mikil hætta sé á snjóflóðum á Austfjörðum en þar átti að snjóa mikið í gærkvöldi og nótt. Spár gera ráð fyrir hvassviðri með mikilli ofankomu haldi áfram í dag en á morgun fer að draga úr veðrinu. Búast má við að snjóflóðahætta aukist hratt til fjalla á meðan þetta veður gengur yfir og að snjóflóð geti fallið víða í bröttum brekkum.

„Norðaustan hvassviðri eða stormur í öllum landshlutum í dag með snjókomu og skafrenningi um landið norðanvert, en þurrt og jafnvel bjart sunnanlands. Það dregur smám saman úr vindstyrknum þegar líður á daginn, einna síðast SA-lands þar sem búast má við að verði bálhvasst undir Vatnajökli með kröftugum hviðum, einkum frá Öræfum að Hamarsfirði, og þar fer ekki að lægja fyrr en seint í nótt. 

Á morgun lægir um allt land og kólnar nokkuð skarpt, með stöku éljum norðaustantil, en styttir upp þegar líður að kvöldi. 

Á föstudag er vaxandi suðaustanátt með úrkomu sunnan- og austantil og dregur úr frosti,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands nú í morgunsárið.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðaustan 13-23 m/s, hvassast um landið norðan- og vestanvert og undir Vatnajökli eftir hádegi. Snjókoma fyrir norðan, slydda austast, en þurrt annars staðar. Sums staðar talsverð snjókoma til fjalla norðaustantil. Hægari norðvestanlands í kvöld. Hiti nálægt frostmarki.
Norðlæg átt 5-10 á morgun, en 8-15 austast fram eftir degi. Stöku él um landið norðaustan-vert, annars víða léttskýjað. Kólnandi veður.

Á fimmtudag:

Minnkandi norðanátt og víða léttskýjað sunnan- og vestantil, en stöku él á Norður- og Austurlandi. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins. 

Á föstudag:
Suðaustan og austan 8-15 m/s og dálítil snjókoma sunnan- og vestanlands í fyrstu, en síðan slydda eða rigning. Skýjað og þurrt í öðrum landshlutum. Frost 0 til 10 stig, kaldast á Norðausturlandi, en hlánar við Suðurströndina. 

Á laugardag:
Austan- og norðaustanátt með rigningu eða slyddu um landið suðaustan- og austanvert, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti um frostmark. 

Á sunnudag og mánudag:
Suðvestlæg eða breytileg vindátt, úrkoma í flestum landshlutum og hiti um og undir frostmarki. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt og stöku él fyrir norðan, en bjart sunnan heiða. Kólnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert