Heppnar að kynnast þessum sælureit

Bianca Sierra og Stephany Mayor Gutiérrez bregða á leik í …
Bianca Sierra og Stephany Mayor Gutiérrez bregða á leik í snjónum heima á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stephany Mayor Gutiérrez og Bianca Sierra eru alsælar norður undir heimskautsbaug þótt ræturnar liggi sunnar á hnettinum – í Mexíkó og Kaliforníu. Þær eru leikmenn Íslandsmeistaraliðs Þórs/KA í fótbolta, hlakka til sumarsins og segjast jafnvel vera að hugsa um að setjast að í höfuðstað Norðurlands. Kunna vel við sig í rólegu umhverfi og finnst snjórinn frábær!

Mexíkósku leikmennirnir í knattspyrnuliði Þórs/KA á Akureyri léku stórt hlutverk í fyrrasumar, þegar liðið varð Íslandsmeistari. Þær voru þrjár, framherjinn Sandra Stephany Mayor Gutiérrez, miðjumaðurinn Natalia Gómez Junco og varnarmaðurinn Bianca Sierra. Gomez Junco er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra en þær Stephany Mayor og Bianca eru mættar „heim“ til Akureyrar á ný eftir verkefni með landsliði Mexíkó og frí á hlýrri slóðum, fullar tilhlökkunar fyrir komandi átök.

„Það er yndislegt að vera komnar aftur. Við söknuðum Akureyrar og vina okkar hér, þótt við værum bara nokkra mánuði í burtu,“ segir Bianca þegar blaðamaður hitti þær stöllur að máli í vikunni. Hún er skrafhreifnari en unnustan, Stephany Mayor, sem lætur verkin frekar tala inni á vellinum! Stephany er fædd og uppalin í Mexíkó en Bianca, sem er af mexíkósku foreldri, hins vegar í Bandaríkjunum og hefur búið þar alla tíð.

Aðstoðuðu fórnarlömb jarðskjálftanna

Þær voru á töluverðu flakki í vetur sem fyrr segir. „Við fórum fyrst hvor til síns heima, landsliðið hélt svo til Kína, þar sem við vorum í þrjár vikur, því næst dvöldum við heima hjá Fany í Mexíkó áður en landsliðið fór í hálfan mánuð til Kosta Ríka,“ segir Bianca. Hún var heima í Kaliforníu um jólin en Stephany í Mexíkó. „Hún kom svo til mín og við fórum saman til Íslands.“

Eitt af því sem þær segja standa upp úr dvölinni ytra í vetur er för þeirra á jarðskjálftasvæðið í Mexíkó, sem greint er frá hér til hliðar. „Allir voru svo þakklátir. Hvar sem við komum vildi fólk gefa okkur eitthvað fyrir að hjálpa því. Kona sem seldi mexíkóskar kökur á einum stað, önnur sem seldi melónur annars staðar; hún sagði okkur að taka eins mikið með okkur og við vildum. Við tókum það að sjálfsögðu ekki mál og sögðumst vilja borga. Þetta var ótrúlegt; þarna var fólk sem átti nánast ekki neitt en vildi gefa okkur eitt og annað. Það var mjög gefandi að geta aðstoðað fólk í vanda,“ segir Bianca.

Stephany og Bianca kynntust þegar þær voru valdar í landslið 20 ára og yngri fyrir heimsmeistaramótið árið 2010. Þær felldu fljótlega hugi saman en ekki er langt síðan þær komu út úr skápnum, eins og það er kallað.

Samkynhneigð á ekki sérstaklega upp á pallborðið heima í Mexíkó, þótt þær segi ástandið fara batnandi hægt og sígandi. Töluverða athygli vakti þegar þær greindu frá sambandi sínu í viðtali við bandaríska dagblaðið New York Times í fyrrasumar, m.a. það að fyrrverandi þjálfari landsliðsins hefði ekki verið sérlega ánægður með vinskapinn. „Við gætum í sjálfu sér alveg búið saman í Mexíkó en þar eru samt enn margir mjög á móti sambandi fólks af sama kyni. Heima í Kaliforníu er þetta hins vegar ekkert vandamál, hvað þá hér á Íslandi,“ segir Bianca.

Hún kannast þó vel við andstöðu við samkynhneigð í Bandaríkjunum. „Ég var við nám í Alabama, í Biblíubeltinu,“ segir hún og þarf varla að útskýra það nánar.

Ekki þarf að ræða lengi við þær tvær til að skynja hve vel þeim líður á Akureyri. „Okkur finnst við mjög heppnar að hafa kynnst þessum sælureit,“ segja þær nánast í kór. „Við söknuðum Akureyrar í vetur; rútínunnar í lífi okkar, að vakna hér, borða saman morgunmat, fara í ræktina í Bjargi eða á fótboltavöllinn í Boganum fyrir hádegi, fara á kaffihús niðri í bæ, slappa af hér heima og æfa svo með stelpunum undir kvöld. Það er þægilegt að búa á Akureyri og fólk er afslappað. Maður áttar sig best á því þegar farið er í burt og dvalið annar staðar. Líka því hve maturinn er góður og vatnið. Þegar ég kom heim áttaði ég mig á því hve vatnið er ofboðslega bragðgott hér!“ segir Bianca.

Nánar er rætt við Stephany Mayor og Bianca Sierra í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Bianca og Stephany ásamt einni konunni sem þær aðstoðuðu heima …
Bianca og Stephany ásamt einni konunni sem þær aðstoðuðu heima í Mexíkó. Sú er á tíræðisaldri, hús hennar skemmdist gríðarlega í skjálftanum mikla en þær náðu að kosta lagfæringarnar. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert