Fór líklega ofan í efnisnámu

Frá björgun fólksins af toppi bílsins í Fiská
Frá björgun fólksins af toppi bílsins í Fiská Ljósmynd/Aðsend

Svæðið við Fiská í Vatnsdal á Suðurlandi þar sem stór jeppi festist í ánni fyrr í dag er einn þeirra staða á Suðurlandi þar sem lítið eða ekkert símasamband er. Þegar fyrstu boð til lögreglu og björgunarsveita bárust voru því komnar takmarkaðar upplýsingar um hvers konar verkefni væri um að ræða og hvort farþegar bílsins hafi verið í mikilli hættu eða ekki.

Jón Hermannsson í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi segir í samtali við mbl.is að allt í allt hafi um 20 björgunarsveitarmenn verið kallaðir til auk sjúkraflutningamanna og lögreglumanna.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var jeppinn kominn á kaf í ánni, en Jón segir að vegna vatnavaxta hafi áin flætt yfir svæði þar sem efnistaka hafi verið. Því sé líklegast að jeppinn hafi lent ofan í einni slíkri holu þaðan sem efnistaka hafi verið án þess að bílstjórinn hafi gert sér grein fyrir því.

Fólki var bjargað af bílnum yfir í björgunarsveitarbíl björgunarsveitarinnar Dagrenningar.
Fólki var bjargað af bílnum yfir í björgunarsveitarbíl björgunarsveitarinnar Dagrenningar. Ljósmynd/Aðsend

Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum voru fjórir farþegar í bílnum auk bílstjórans. Segir Jón að vel hafi gengið að ná fólkinu í land og engum hafi orðið meint af volkinu, þótt einhverjir hafi orðið smá kaldir.

Flugbjörgunarsveitin á Hellu kom með Unimog-trukk á staðinn sem var notaður til að toga upp jeppann og segir Jón að vel hafi gengið að koma honum til byggða.

Jón segir þetta svæði vera mjög vinsælt meðal ferðaþjónustuaðila og að heilmikil umferð sé þarna allt árið. Þarna séu torfæruleiðir og fólk hafi gaman af að fara þarna um.

Fiská er í Vatns­dal sem er við fjallið Þrí­hyrn­ing, fyr­ir ofan Fljóts­hlíð. Hægt er að stytta sér leið úr Fljóts­hlíð yfir í Keld­ur eða yfir á Syðra-Fjalla­bak þegar um­rædd leið er far­in.

Björgunarsveitarmenn að störfum í Fiská í dag.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Fiská í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert