Bíllinn var nánast kominn á kaf

Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna málsins.
Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna málsins. mbl.is/Ómar

Jeppinn sem var á leið yfir Fiská á Suðurlandi og festist þar fyrr í dag lenti í djúpum pytti og fór vatn upp fyrir rúður að aftan. Var bíllinn nánast á kafi þegar lögregla og björgunarsveitir komu á staðinn. Þetta segir lögreglan á Hvolsvelli. Segir hún að um hafi verið að ræða þaulvanan ökumann á stórum jeppa með ferðamenn og að um sé að ræða óhapp sem alltaf geti orðið.

Áin hafi verið nokkuð erfið yfirferðar og stórir jakar í henni og jakar uppi á öllum eyrum. Því hafi áin ekki verið fær nema stærstu bílum sem hafi verið raunin í þetta skipti. Aftur á móti verði stundum pyttir í ánni og bíllinn hafi endað í einum slíkum. Tekur lögreglan fram að áin sé ekki mikið straumvatn þó að þar geti orðið djúpt í pyttum.

Fjórir farþegar voru í bílnum auk bílstjóra. Þegar lögreglan kom á staðinn var ökumaðurinn kominn í land en þrír farþegar ofan á bílnum og einn hékk í hurð bílsins. Björgunarsveitarmenn frá Dagrenningu hafi bakkað sínum bíl út í ánna að jeppanum og ferjað farþegana í land. Því næst hafi verið unnið að því að ná jeppanum upp og er hann nú kominn á Hvolsvöll.

Fólkið sakar ekki þó það hafi orðið blautt og hrakið við volkið.

Fiská er í Vatnsdal sem er við fjallið Þríhyrning, fyrir ofan Fljótshlíð. Hægt er að stytta sér leið úr Fljótshlíð yfir í Keldur eða yfir á Syðra-Fjallabak þegar umrædd leið er farin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert