Siðareglum Alþingis breytt vegna #metoo

Steingrímur J. Sigfússon á rakararáðstefnunni á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon á rakararáðstefnunni á Alþingi. mbl.is/Eggert

Starfshópur hefur skilað forsætisnefnd Alþingis skýrslu  með tillögum um breytingar á siðareglum Alþingis. Þar mun koma fram að óviðeigandi hegðun og framferði verði ekki liðin. Einnig stendur til að útbúa viðbragðs- og aðgerðaáætlun til að Alþingi geti verið vel í stakk búið til að taka á hlutum sem koma upp.

Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, í lokaorðum hinnar svokölluðu rakararáðstefnu sem var haldin á Alþingi í morgun.

Aðdragandi viðburðarins má rekja til áskorunar karlþingmanna forsætisnefndar Alþingis með hvatning um að haldin væri ráðstefna sem gæfi körlum og konum á þingi tækifæri til að eiga opinskáar umræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna.

„Ekki vera fáviti“

Steingrímur sagði það einnig koma til greina að gera einhvers konar könnun og úttekt á ástandinu, til þess að sjá hvar Alþingi er statt í þessum efnum og hvort það er á réttri leið. Fyrrverandi þingmenn myndu hugsanlega vera þátttakendur í því verkefni.

„Ég held að #metoo-byltingin sé ekki síst gríðarlega mikilvæg vegna þess að hún gerir út um það að það er ekki valkostur að gera ekki neitt, það þarf ekki að ræða það,“ sagði hann og minntist á slagorð rokkhátíðarinnar Eistnaflugs í þeim efnum, „Ekki vera fáviti“.

Frá Alþingi í hádeginu í dag.
Frá Alþingi í hádeginu í dag. mbl.is/Eggert

Þörf á grundvallarbreytingu

„Ég er ekki frá því að þetta eigi eftir að verða einn eftirminnilegasti dagur minn á Alþingi og eru þeir nú orðnir nokkrir,“ sagði  Steingrímur einnig. „Ég er í sjöunda himni yfir því að þetta skuli hafa verið gert og tekist svona vel.“

Hann sagði að þörf væri á grundvallarbreytingu í viðhorfum, eða „system change“ og sagði vel raunhæft að af því geti orðið. „Það kostar úthald og dug og þolinmæði að halda umræðunni gangandi og sofna ekki á verðinum. Þá geta ótrúlegir hlutir gerst á skömmum tíma.“

Steingrímur minntist á hve mikið hefur gerst í réttindabaráttu samkynhneigðra á síðustu 25 árum og vonaðist til að sambærileg viðhorfsbreyting yrði vegna kynbundins ofbeldis í garð kvenna. „Við þurfum að sameinast um margt í þeim efnum, þar á meðal um úthaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert