Lögreglan lýsir eftir vitnum að umferðarslysi

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum óskar eftir vitnum að umferðaróhappi þar sem ung stúlka hljóp á bifreið sem ekið var Súlutjörn í Reykjanesbæ. Óhappið átti sér stað 31. janúar um kl. 18.20. Unga stúlkan slasaðist við óhappið og þarf lögreglan að ná tali af ökumanni bifreiðarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

„Samkvæmt framburði þá er um að ræða rauðan smábíl, skráningarnúmer ekki vitað. Líkur eru á því að annar hliðarspegill bifreiðarinnar hafi skemmst við óhappið. Ökumaður bifreiðarinnar var ung kona á þrítugsaldri með dökkt hár. Ökumaðurinn stöðvaði til að kanna með ástand stúlkunnar en lögreglan var ekki kölluð á vettvang. Mikilvægt er að ná tali af ökumanni,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan bendir á að þeir sem urðu vitni að árekstrinum eða geta gefið lögreglu frekari upplýsingar séu vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 2200 en einnig megi senda upplýsingar í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert