„Ekki enn farin að sjá til lands“

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. Ljósmynd/Aðsend

„Það er í sjálfu sér ekki langt á milli samningsaðila en núna þurfum við að leysa ýmis atriði sem tengjast menntamálaráðuneytinu og útfærslu á síðasta kjarasamningi,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, eftir síðasta fund fé­lags­ins með rík­is­sátta­semj­ara í gær. 

Hún bendir á að það sem þurfi að leysa séu meðal annars atriði í kjarasamningi frá 2014 sem félagið telji að menntamálaráðuneytið hafi ekki efnt að fullu á þessum tíma. Næst á dagskrá sé að fá fund með fulltrúa menntamálaráðuneytisins.    

Félag framhaldsskólakennara á fund með menntamálaráðuneytinu í dag. Á þeim kynningarfundi verður farið yfir drög að nýju reiknilíkani þar sem fjallað verður um úthlutun fjármagns til framhaldsskólanna. 

Næsti fundur félagsins með ríkissáttasemjara verður 22. febrúar. Í millitíðinni heldur félagið áfram að funda og fara yfir stöðuna og vonandi verður annar fundur með fulltrúum menntamálaráðuneytisins, að sögn Guðríðar. 

„Við erum ekki enn farin að sjá til lands. Kannski erum við pínulítið villt enn þá,“ segir Guðríður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert