Kallar eftir uppsögn samninga

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Framsýn kallar eftir uppsögn samninga verði ekki orðið við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um leiðréttingu launa og að ríkisstjórnin komi til móts við áherslur hreyfingarinnar í velferðarmálum.

Þetta kemur fram í ályktun stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar.

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags hvetur verkalýðshreyfinguna til að nýta sér ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með því að segja upp gildandi kjarasamningum í febrúar,“ segir í ályktuninni.

„Það er ef Samtök atvinnulífsins fallast ekki á að leiðrétta forsendubrest og þá misskiptingu sem endurspeglast í launahækkunum til annarra hópa launafólks umfram félagsmenn ASÍ.  Svo ekki sé talað um góðvild Kjararáðs í garð embættismanna og þjóðkjörinna alþingismanna sem reglulega úrskurðar þeim ofur starfskjör sem vart eiga sér hliðstæðu á íslenskum vinnumarkaði.“

Fram kemur að á sama tími þyki sjálfsagt að auka skattbyrði á lágtekjufólki umfram þá sem þiggja hærri laun.

„Framsýn stéttarfélag telur að vaxandi misskipting í samfélaginu sé mein sem þurfi að uppræta þegar í stað.  Að mati félagsins hefur verkafólk sýnt alltof mikla biðlund en nú sé komið að síðustu stoppistöð. Laun verða að duga fyrir framfærslu, annað er ekki í boði árið 2018,“ segir einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert