Rætt um réttindi Íslendinga í Bretlandi

AFP

Viðræður eru hafnar á milli stjórnvalda í Bretlandi annars vegar og ráðamanna á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein um gagnkvæm réttindi ríkisborgara landanna eftir að Bretar ganga úr Evrópusambandinu.

Síðarnefndu ríkin þrjú eru aðilar að EES-samningnum í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu og standa þannig utan sambandsins en samningurinn mun eftir útgöngu Bretlands ekki gilda lengur um tengsl ríkjanna. 

Bresk stjórnvöld náðu samkomulagi við Evrópusambandið í desember um að staðinn verði vörður um réttindi þeirra þriggja milljóna íbúa annarra ríkja sambandsins sem búa í Bretlandi og þá einu milljón breskra ríkisborgara sem búa í öðrum ríkjum þess.

Fram kemur á vef breskra stjórnvalda að 18 þúsund Norðmenn búi í Bretlandi auk 2 þúsund Íslendinga og 40 ríkisborgara Liechtenstein. Hins vegar búi 15 þúsund Bretar í Noregi, 800 Bretar á Íslandi og 60 í Liechtenstein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert