Fylgstu með lægðinni

Lægðin kemur yfir landið í fyrramálið.
Lægðin kemur yfir landið í fyrramálið. Skjáskot/Windy.com

Veðurstofan varar við suðaustanillviðri á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan 7 og 11 í fyrramálið.

Viðvörunin er appelsínugul sem þýðir að miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem getur haft mikil samfélagsleg áhrif. 

Spáð er suðaustan 20 til 28 metrum á sekúndu, hvassast í efri byggðum og á Kjalarnesi. Snjókoma verður í fyrstu en síðan slydda og rigning. Blint gæti orðið og er foktjón talið líklegt.

Líkur eru á að samgöngur innan borgarmarkanna fari úr skorðum á meðan veðrið gengur yfir.

Á Suðurlandi er einnig appelsínugul viðvörun. Þar er spáð suðaustanstormi eða -roki, 20 til 28 metrum á sekúndu með vindhviðum yfir 40 metrum á sekúndu, einkum við fjöll.

Appelsínugul viðvörun hefur einnig verið gefin út fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra. Annars staðar á landinu hefur verið gefin út gul viðvörun. 

Á kortinu hér fyrir neðan verður hægt að fylgjast með því þegar lægðin fer yfir landið. Athugið að ekki er um rauntímagögn að ræða.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert