Vantar 88 lögregluþjóna í Reykjavík

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, segir 88 lögregluþjóna vanta í Reykjavík til að fjöldi þeirra sé í samræmi við mannfjöldaaukningu svæðisins frá aldamótum. Þá sé ekki tekið tillit til fjölgunar ferðamanna. Þorsteinn var málshefjandi í sérstökum umræðum um löggæslumál á Alþingi í dag.

Sagði hann málefni lögreglunnar á Íslandi í algjörum ólestri. „Þar sem vaktirnar hafa orðið fámennari en þær hafa verið þá fer lögreglan fámennari á vettvang,“ sagði Þorsteinn og bætti við að því fylgdi áhætta fyrir lögreglumenn og þeir væru gjarnari á að lenda í meiðslum.

12% færri lögreglumenn en fyrir áratug

Í fjárlögum þessa árs var 180 milljónum króna bætt í löggæslu frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir. Þá var hálfum milljarði bætt í löggæslumál í fjárlögum ársins 2014. Sagði Þorsteinn sífellt reynt að bæta úr vanda lögreglunnar með bútasaumi. Heildarstefnu þurfi til.

Hann sagði ekki víst að allir áttuðu sig á hve mikið það kostaði að halda uppi öflugri löggæslu, og benti á að til að manna sólarhringsstöðu öllum stundum þurfi fimm og hálft stöðugildi.

Á síðasta áratug hefur lögreglumönnum á landinu fækkað úr 712 í 629 eða um tæp 12%. Þá hefur akstur lögreglubíla dregist saman um 250 þúsund kílómetra á síðustu þremur árum. 

mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert