Tugum dýra bjargað – metfjöldi útkalla

Slökkviliðið að störfum við bílakjallara við Skógarveg fyrr í vikunni.
Slökkviliðið að störfum við bílakjallara við Skógarveg fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu ásamt björgunarsveit bjargaði tugum dýra í Fjárborgum við Suðurlandsveg í nótt en flætt hafði inn í hesthús og fjárhús. Alls sinnti slökkviliðið um 100 útköllum frá því um miðjan dag í gær, sem er met.

„Við höfum aldrei lent í öðru eins,“ segir Stefán Kristinsson, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, um vaktina.

Hann segir að um 30 kindum hafi verið bjargað í Fjárborgum, auk þess sem 15 hestar hafi staðið upp að kvið í vatni. Stöðuvatn hafi verið í kringum húsin. Þangað hafi björgunarsveit verið kölluð til aðstoðar og stóð útkallið yfir í um eina og hálfa klukkustund.

Annað af stærstu útköllunum í nótt var vegna bílakjallara í fjölbýlishúsi í Hvarfahverfinu í Kópavogi sem var á floti. Stefán giskar á að í honum hafi verið um 300 til 500 tonn af vatni en bílakjallarinn er um 1.000 fermetrar. Yfirborð vatnsins hafi náð um 30 til 50 sentímetrum.

Kristinn segir að vaktin verði fegin að komast heim en kallaður var út aukamannskapur vegna vatnsveðursins. Alls voru hátt í 40 manns í vinnu hjá slökkviliðinu í nótt en venjulega eru þeir 23.

mbl.is/Ófeigur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert