Þekkingarleysi ferðamanna í umferðinni

Lögreglan segir að kunnátta erlendra ferðamanna á umferðarlögum sé oft …
Lögreglan segir að kunnátta erlendra ferðamanna á umferðarlögum sé oft ábótavant. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á Austurlandi hafði um helgina afskipti af erlendum ökumanni sem hafði ekið utan í umferðarmerki sem var staðsett á miðjum vegi á blindhæð. Vakti það athygli lögreglunnar að bifreiðin var skemmd á hægri hlið en ekki á þeirri vinstri. Ástæðan var þekkingarleysi ferðamannsins sem keyrði, en nokkuð hefur borið á slíku hjá erlendum ökumönnum, að því er lögreglan á Austurlandi segir í nýrri færslu á Facebook.

Í samtali lögreglu við ökumanninn kom í ljós að hann hafði talið að örin á merkinu vísaði á þann hluta vegarins sem hætta væri á að umferð kæmi á móti og var hann því búinn að aka öfugu megin við þau blindhæðarmerki sem hann hafði komið að á leið sinni hingað austur á land. 

Segir lögreglan þetta vera eitt skýrasta dæmið sem hafi komið upp sem sýni að kunnátta sumra gesta landsins á umferðarlögum er mjög ábótavant.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert