Fá afslátt ef þeir hafa hlaupið áður

Keppendur í 10 kílómetra hlaupi voru hressir í bragði við …
Keppendur í 10 kílómetra hlaupi voru hressir í bragði við upphaf Reykjavíkurmaraþonsins í fyrra. Þeim býðst afsláttur af skráningargjaldi skrái þeir sig snemma. mbl.is/Árni Sæberg

Töluverð hækkun hefur virðist hafa orðið á skráningagjaldi í Reykjavíkurmaraþoninu að því er glöggur hlaupari benti mbl.is á. Hlauparinn sem hefur skráð sig í hálfmaraþon frá 2016 og gengið snemma frá skráningu bendir á að hann hafi borgað 4.830 kr. árið 2016, 5.300 kr. í fyrra og er hann skoðaði verðið á vef Reykjavíkurmaraþons nú fyrir skemmstu var það komið upp í 6.320 kr. Er það 19% hækkun frá því í fyrra og 30% hækkun frá 2016.

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), segir ástæðuna vera breytingu á verðskrá samtakanna. Hún feli í sér að þeir sem hafa tekið þátt í hlaupinu áður fá afslátt, sem er ekki tiltekinn í verðskránni, ef þeir skrá sig snemma.

Afslátturinn kemur sjálfkrafa inn

„Þessi afsláttur kemur sjálfkrafa inn þegar fólk skráir sig og kemur í staðinn fyrir verðtímabilið sem við vorum með áður frá janúar til mars fyrir Reykjavíkurmaraþonið,“ segir í skriflegu svari Frímanns. Þetta sé tilkynnt í tvígang með tölvupósti á póstlista Reykjavíkurmaraþons, fyrst um tveimur vikum áður en afslátturinn rennur út og svo aftur tveimur dögum áður.

Um 20 þúsund manns eru á póstlistanum, en þátttaka í hlaupinu hefur farið vaxandi ár frá ári og tóku í fyrra um 14 þúsund manns þátt.

Frímann segir lægsta verð í hálfmaraþon þetta árið því vera 5.530 kr. fyrir þá sem hafa hlaupið áður. Er það 4% hærra en í fyrra og að meðaltali sú hækkun sem varð í öllum vegalengdum. „Þó stendur verðið fyrir börn og unglinga almennt í stað, auk þess sem bætt var inn sérstöku unglingaverði í hálfmaraþoni í ár.“ 

Enn ódýrara að hlaupa á Íslandi

Hann segir skráningargjald í hálfmaraþoninu þó hafa hækkaði óvenjumikið í fyrra, eða um 10%, sem hafi verið gert til að leiðrétta skekkju sem var í verðskránni út frá kostnaði við þessa vegalengd.

Enn sé þó ódýrara að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en í sambærilegum hlaupum í löndunum í kringum okkur.

„Við skoðum á hverju ári verð í hlaup í nágrannalöndunum þá sérstaklega hér næst okkur á Norðurlöndunum. Þar er lægsta verðið í hálft maraþon á verðbilinu 6.759 kr til 8.599 kr. þ.e. 22%-55% hærra en lægsta verð í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka,“ segir Frímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert