Dómur vegna ökklabrots Vigdísar ómerktur

Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur.
Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur Íslands ómerkti í dag héraðsdóm Reykjavíkur vegna skaðabótamáls sem Vigdís Grímsdóttir rithöfundir höfðaði gegn Mosfellsbakaríi. Dómnum var vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Vigdís hafði betur í héraðsdómi en dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar.


Vigdís höfðaði mál gegn Mosfellsbakarí og Hermanni Bridde vegna óhapps sem hún varð fyrir í bakaríinu við Háaleitisbraut árið 2014. Vigdís missti jafnvægið á leið sinni út úr bakaríinu þegar útidyrahurðin kom í bak hennar með þeim afleiðingum að hún féll og ökklabrotnaði.

Vígdís og forsvarsmenn bakarísins deildu um það hvort dyraumbúnaður bakarísins hafi verið vanbúinn og sneru deilurnar að tveimur atriðum. Annars vegar um hæðarmun á gólfinu í bakaríinu og gangréttarinnar fyrir utan og hins vegar hvort hurðarpumpa útidyrahurðarinnar hafi virkað sem skyldi.

Í dómi hæstaréttar kemur fram að ekki hefði farið fram fullnægjandi öflun sönnunargagna um ástand, virkni og mögulega hættueiginlega hurðarpumpunnar. Vígdís lagði meðal annars fram minnisblað sem hún hafði fengið frá verkfræðistofunni Eflu um aðstæður við inngang bakraísins. Í dómi hæstaréttar segir að héraðsdómur hefði ekki átt að taka minnisblaðið til greina þar sem því hafi verið aflað einhliða og án þess að Mosfellsbakarí hefði kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð þess. 

Því hefði héraðsdómara verið ókleift að fjalla um málsaðstæður sem uppi hefði verið hafðar um þann þátt málsins á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu.

Að mati dómsins var því þörf á sérkunnáttu og hefði það átt að koma í hlut héraðsdómara að kveðja til meðdómsmenn samkvæmt lögum. Þar sem það var ekki gert var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert