Fækkað fyrir tilstilli Facebook

Um 2.600 hundar eru skráðir hjá Reykjavíkurborg og fá flestir …
Um 2.600 hundar eru skráðir hjá Reykjavíkurborg og fá flestir eigenda þeirra 50% afslátt af eftirlitsgjaldi þar sem búið er að fara með hundana á námskeið. Mynd úr safni. AFP

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk 2,3 milljónir króna í tekjur af handsömunargjaldi hunda árið 2012. Í fyrra námu tekjur vegna þessa hins vegar ekki nema 180.000 kr. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins segir ástæðuna þá að hundum sem fangaðir eru hafi fækkað, m.a. fyrir tilstilli Facebook.

Um 2.600 hundar eru nú skráðir hjá Reykjavíkurborg og áætlar heilbrigðiseftirlit borgarinnar að óskráðir hundar í borginni séu á bilinu 25-30% til viðbótar.

Áætlaðar tekjur borgarinnar af leyfisgjöldum á þessu ári eru um 33,8 milljónir króna og hafa tekjurnar tekið litlum breytingum frá 2011 þegar uppgjör eftirlitsins er skoðað. Það ár námu tekjur fyrir eftirlitið 27 milljónum kr. en 2016 voru þær komnar upp í 30 milljónir kr. Tekjur vegna skráninga nýrra hunda á tímabilinu taka sömuleiðis litlum breytingum og eru á bilinu 4-5 milljónir króna.

Útköllin fleiri en hundarnir sem færðir eru í geymslu

Verulega dregur hins vegar úr tekjum af handsömunargjaldi á tímabilinu. Árið 2011 var það tæpar 1,5 milljónir kr. og árið eftir hoppaði það upp í 2,3 milljónir kr. Árið 2012 hefur því væntanlega verið óvenju annasamt ár hjá eftirlitsstarfsfólki. 2014 voru tekjur af eftirliti hins vegar komnar niður í tæp 600.000 kr., árið eftir voru þær tæpar 800.000 kr. og í fyrra voru þær ekki nema 180.000 kr. 

Hundar á æfingu. Þeim hundum sem eru fangaðir vegna lausagöngu …
Hundar á æfingu. Þeim hundum sem eru fangaðir vegna lausagöngu hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Mynd úr safni. AFP

Í skriflegu svari frá Árnýju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins, segir að hundum sem fangaðir eru vegna lausagöngu hafi fækkað og Facebook eigi þar hlut að máli, sem sé vel. „Útköllin eru hins vegar mun fleiri en hundar færðir í geymslu segir til um þar sem hundaeftirlitið leggur mikla áherslu og vinnu í að koma hundunum til síns heima finnist eigandinn, sem tekst í langflestum tilfellum,“ segir hún.  

Spurð hversu margir þeirra hunda sem teknir eru séu skráðir hjá borginni eða örmerktir, segir Árný tölvukerfi heilbrigðiseftirlitsins ekki bjóða upp á slíka samantekt. „En flestir hundanna eru skráðir í hundaskrá borgarinnar eða nágrannasveitarfélaganna.“ Sé hundur óskráður sé oft hægt að finna hann í Dýraskrá Íslands og hafa þannig uppi á eigandanum og fá hundinn skráðan.

Flestir borga hálft gjald

Skráningargjald fyrir hund hjá Reykjavíkurborg er 20.800 kr. og árlegt eftirlitsgjald er 19.850 kr.  Árný segir hins vegar oft gleymast í umræðunni að flestir hundaeigendur í Reykjavík greiða ekki nema hálft gjald, en þeir hundaeigendur sem fara með hunda sína á námskeið fá 50% afslátt af gjaldinu.

Þrír starfsmenn eru í fullu starfi við hundaeftirlit hjá heilbrigðiseftirlitinu, tveir hundaeftirlitsmenn og einn ritari. Tekjur af skráningu og eftirlitsgjald eru notuð til að greiða laun þeirra, kostnað við lögfræðiaðstoð og þriðjung af launum framkvæmdastjóra. Spurð hvort það endurspegli hversu stór hluti af starfi framkvæmdastjórans fari í vinnu vegna hundaeftirlitsins segir Árný það misjafnt eftir tímabilum. Vinnan sé stundum minni en líka stundum meiri. 

Tekjurnar eru einnig notaðar til að kaupa ábyrgðatryggingar sem felast í eftirlitsgjaldinu, greiða húsaleigu, hita, rafmagn og rekstur bíls. Tekjurnar eru raunar, að því er fram kemur í svarinu, ekki sagðar standa að fullu undir kostnaði og greiðir borgin því afgang kostnaðarins.

Strætó mun frá og með morgundeginum heimila gæludýrum að ferðast …
Strætó mun frá og með morgundeginum heimila gæludýrum að ferðast með strætisvögnum. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs. mbl.is/Gunnar Dofri

Vilja eitt dýraeftirlit fyrir öll dýr

Starfsmenn hundaeftirlitsins starfa þó eingöngu á dagvinnutíma á virkum dögum og er það hlutverk lögreglu að sinna lausagönguhundum á öðrum tímum, en nokkuð hefur verið kvartað yfir að það sé ekki gert. Árný segir lagabreytingu nauðsynlega eigi að breyta þessu og það sé ekki hlutverk heilbrigðiseftirlitsins.

„Hins vegar hefur HER [Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur]bent á það lengi að það megi gjarnan skoða leiðir t.d. til reksturs dýraeftirlits borgarinnar og ekki síst núna þegar talsverðum árangri er náð hvað varðar hundahald í borginni.“

Segir hún hugmyndir heilbrigðiseftirlitsins vera hvort ekki megi skoða að hafa eitt dýraeftirlit í borginni, sem tæki þá til allra gæludýra, búfénaðar, málefna meindýraeyða og öðru því er varðar dýr. „Þá á ég við þau lögboðnu verkefni sem sveitarfélög hafa sem varða annað en dýravelferð, sem er hjá ríkinu (Matvælastofnun).“ Dýraverndunarlög kveði hins vegar á um að það sé ábyrgð allra vakni grunur um illa meðferð dýra. 

Verkefni sveitarfélaga sé hins vegar „að hafa úrræði fyrir dýr sem eru fönguð og til aðstoðar fyrir dýr sem finnast t.d. særð í borgarlandi, framfylgja og fara að samþykktum ýmsum er varða dýr.“  Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eða heilbrigðiseftirlit fari síðan með þau þvingunarmál sem mögulega koma upp; það sé þeirra að rannsaka málin og grípa til viðeigandi úrræða til að bæta dýrahaldið og taka dýr af fólki vegna sannanlegra brota“.

Ekki mótfallið hundum

Árný segist líka gjarnan heyra klifað á þeirri bábilju að Heilbrigðiseftirlitið setji strangar reglur. „Hið rétta er, sem hefur margoft verið útskýrt fyrir samtökum hundeigenda og fleirum, að Heilbrigðiseftirlit í landinu setur engin lög eða reglugerðir né er í stefnumótun.  Það gera löggjafinn og stjórnmálamenn.“

Heilbrigðiseftirlitið sé ekki mótfallið hundum, en því sé skylt að framfylgja lögum og reglum. Heilbrigðiseftirlitið sé engu að síður, og hafi sýnt það í umsögnum um ýmislegt er varðar hunda og vinnu við endurskoðun á samþykktum um hundahald, að það sé opið fyrir breytingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert