Sólveig Anna nýr formaður Eflingar

Sólveig var orðlaus þegar úrslitin voru ljós.
Sólveig var orðlaus þegar úrslitin voru ljós. Haraldur Jónasson/Hari

B-listi, undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sigraði með miklum yfirburðum í stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags. B-listinn fékk 2.099 atkvæði, eða rúm 80 prósent atkvæða, en A-listi stjórnar og trúnaðaráðs fékk 519 atkvæði. Úrslit lágu fyrir nú fyrir skömmu. 

„Ég er bara orðlaus, þetta er ótrúlegt. Ég er hérna fyrir utan kosningavökuna á leiðinni inn að hitta fólkið sem lét þetta gerast,“ sagði Sólveig í samtali við mbl.is rétt eftir að úrslitin voru kunngjörð, en hún var augljóslega mjög hrærð og í miklu spennufalli.

„Ég leyfði mér að vera jákvæð í gær því við erum bara búin að hitta jákvætt fólk. Við höfum ekki hitt eina einustu manneskju sem segir okkur að fara til fjandans. Það spurði okkur enginn út í þennan áróður um að ég væri útsendari Sósíalistaflokksins. Ég leyfði mér því að vera jákvæð, en ég hafði aldrei á neinum tímapunkti látið mig dreyma um eitthvað svona. Aldrei.“ Að því sögðu var Sólveig rokin inn á kosningavökuna og heyrði blaðamaður í bakgrunni að henni var vel fagnað.

Sólveig á kosningavöku B-listans fyrr í kvöld.
Sólveig á kosningavöku B-listans fyrr í kvöld. Haraldur Jónasson/Hari

Sólveig mun taka við sem formaður Eflingar af Sigurði Bessasyni á aðalfundi félagsins 26. apríl næstkomandi.

Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrifum, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.

Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.

Talning atkvæða tók lengri tíma en búist var við en …
Talning atkvæða tók lengri tíma en búist var við en kosningu lauk klukkann 20 í kvöld. Haraldur Jónasson/Hari
Sólveig fagnaði í húsakynnum Eflingar þegar úrslit lágu fyrir.
Sólveig fagnaði í húsakynnum Eflingar þegar úrslit lágu fyrir. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert