Laun íslenskra stjórnmálamanna ótrúlega há

Eiríkur Bergmann segir sigur byltingarafla skrifast á aðgerðir ríkisvaldsins.
Eiríkur Bergmann segir sigur byltingarafla skrifast á aðgerðir ríkisvaldsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir ríkisvaldið aldrei hafa farið almennilega með verkalýðshreyfingunni inn í það vinnumarkaðsmódel sem átti að hafa til hliðsjónar, þar sem ríkið og verkalýðsfélögin áttu vinna með atvinnurekendum að því að hækka laun hinna lægst launuðu. Eiríkur var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem þessi mál voru rædd.

Um er að ræða módel í anda norræna vinnumarkaðsmódelsins þar sem forsendan er sameinuð verkalýðshreyfing og sameinaðir atvinnurekendur.

Eiríkur segir þessar hugmyndir hafa dregið úr baráttugleði verkalýðshreyfingarinnar á síðustu árum, en það fólk sem nú sé komið fram, eins og Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar, telji þessa leið ekki vera að virka. „Það fólk sem hefur komið fram er að skora þessa hugmyndarfræði á hólm og telur að þetta sé ekki rétta leiðin fyrir íslenskt launafólk. Stéttarbaráttan ætti að vera miklu ákafari.“

Eiríkur segir að þrátt fyrir að mikið hagvaxtarskeið hafi átti sér stað á Íslandi frá árinu 1990, kaupmáttur fólks hafi aukist og fólk hafi það almennt miklu betra, hafi stórir hópar setið eftir.

„Einhverra hluta vegna hefur ríkisvaldið, hið opinbera í heild sinni, ekki hugað að því að lyfta almennilega upp þeim sem eru lægst launaðir. Þeir eru miklu lægra launaðir hér heldur en á hinum Norðurlöndunum, svo dæmi sé tekið. Svo held ég, þó að það sé erfitt að kenna um einhverju einu tilteknu og afmörkuðu atriði um, þá held ég að táknrænt séð hafi aðgerðir kjaradóms og stjórnvalda endanlega skemmt þetta ferli. Ég held að sigur þessara byltingarafla skrifist á þessar aðgerðir ríkisvaldsins hvað varðar eigin kjör. Íslenskir stjórnmálamenn eru með best launuðu stjórnmálamönnum í heimi, sem er alveg ótrúlegt miðað við 300 þúsund manna þjóðfélag. Þeir hafa hækkað feykilega mikið og umfram það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.“

Eiríkur sagði svo nýlegar fréttir af því sem hann kallaði „sjálftöku stjórnmálamanna“ ekki hafa bætt úr skák.

„Svo koma nú fréttir af sjálftöku stjórnmálamanna á opinberu fé, misnota sér kerfin og svo framvegis, þetta er stöðugt í fréttum. Það er einhvers konar víxlverkun á milli kjaradóms, sem fær alla þá hækkun til sjálfs sín sem þau vilja inni í nefndinni, og svo hækka þau laun stjórnmálamanna. Þetta kann allt að vera málefnilegt en lítur alveg feykilega illa út. Ríkisvaldið, það fór aldrei almennilega með verkalýðshreyfingunni inn í þetta vinnumarkaðsmódel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert