Neikvæð áhrif Hvammsvirkjunar

Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. …
Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. Með því myndu eyjar, hólmar og flúðir í ánni fara á kaf. mbl.is/Golli

Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvammsvirkjunarinnar á landslag verði verulega neikvæð og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þeirra breytinga sem munu verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu.

Mati á umhverfisáhrifum hvammsvirkjunar er lokið en þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar.

Skipulagsstofnun ákvað í desember 2015 að endurskoða ætti mat á áhrifum Hvammsvirkjunar á landslag og ásynd lands og á ferðaþjónustu og útivist en mat á öðrum þáttum frá 2003 væri í fullu gildi. Sú ákvörðun var kærð til Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum, sem nú í febrúar 2018 hafnaði kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Með áliti Skipulagsstofnunar nú er því mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar lokið og þar með mikilvægum hluta undirbúnings við virkjunina, kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Landsvirkjun mun nú fara yfir þau atriði sem Skipulagsstofnun bendir á og taka tillit til þeirra við frekari undirbúning og mótvægisaðgerðir. Unnið er að vandaðri útlitshönnun mannvirkja, landslagshönnun, rýni á veigamiklum þáttum hönnunar og útfærslu á mótvægisaðgerðum til að lágmarka umhverfisáhrif.

Engar framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar eru áformaðar á þessu ári. Landsvirkjun er að ljúka miklu framkvæmdaskeiði á þessu ári með byggingu tveggja nýrra stöðva; 90 MW jarðvarmastöðvar á Þeistareykjum og 100 MW vatnsaflsstöðvar með stækkun Búrfells.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert