Röng úrslit tilkynnt hjá VR í gær

Fljótfærnismistök voru gerð við útreikning kosningaúrslita í VR og þau …
Fljótfærnismistök voru gerð við útreikning kosningaúrslita í VR og þau hafa nú verið leiðrétt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegna athugasemdar sem kom fram til kjörstjórnar VR í gær varðandi kynjafléttun varamanna hafa orðið breytingar á áður tilkynntum úrslitum til stjórnar VR. Sigmundur Halldórsson, sem lagði fram athugasemdina til kjörstjórna, verður varamaður í stjórn VR í stað Oddnýjar Margrétar Stefánsdóttur.

„Fljótfærnismistök“ ollu því að ekki var kynjafléttað í sæti varamanna þegar úrslitin voru tekin saman í gær, en það hefur nú verið leiðrétt, að sögn Magnúsar M. Norðdahl, lögfræðings Alþýðusambands Íslands.

Þetta verður væntanlega tilkynnt á vef VR á morgun, en þar inni eru enn röng kosningaúrslit.

20.4. gr. laga VR kveður á um að  að sá frambjóðandi sem flest atkvæði fær eigi að skipa 1. sæti í stjórn.

„Næsta sæti skipar sá sem flest atkvæði fékk en er af hinu kyninu o.s.frv. Þeir 7 sem flest atkvæði fá samkvæmt framansögðu teljast rétt kjörnir aðalmenn í stjórn VR til 2ja ára. Næstu 3 teljast rétt kjörnir varamenn í stjórn VR til 1 árs,“ segir í ákvæðinu.

Í tölvupósti sem sendur var kjörstjórn og frambjóðendum í stjórnarkjöri VR í hádeginu í dag kom fram að ákvæðið væri ekki fullkomlega skýrt varðandi fléttun varamanna, en að við skoðun á fundargerðum undanfarinna ára hefði komið í ljós að fléttureglan hefði verið talin gilda um varamenn og þeim raðað inn með þeim hætti að fyrsti varamaður hefði verið af gagnstæðu kyni við síðasta aðalmann inn – og síðan koll af kolli.

„Athugasemd Sigmundar er því á rökum reist,“ segir í tölvupóstinum til kjörstjórnar. Samkvæmt heimildum mbl.is voru ekki allir sáttir með þessa niðurstöðu á fundi kjörstjórnar.

Bjarni Þór Sigurðsson, stjórnarmaður Í VR kallar þetta „áfall fyrir Ragnar Þór,“ en Oddný Margrét er yfirlýstur stuðningsmaður formanns VR.

Rétt kjörnir aðalmenn til tveggja ára:

Sigríður Lovísa Jónsdóttir                       
Bjarni Þór Sigurðsson                                 
Dóra Magnúsdóttir                                     
Arnþór Sigurðsson                                       
Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir                 
Friðrik Boði Ólafsson                             
Ingibjörg Ósk Birgisdóttir

Rétt kjörnir varamenn til eins árs:

Sigurður Sigfússon                                      
Agnes Erna Estherardóttir                       
Sigmundur Halldórsson                              

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert