Ráðherra áhugasamur um að malbika skriðurnar

Óttar Már Kárason, Eyþór Stefánsson og Steinunn Káradóttir með Sigurði …
Óttar Már Kárason, Eyþór Stefánsson og Steinunn Káradóttir með Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Forsvarsmenn bættra vegasamgangna til Borgarfjarðar Eystra funduðu í dag með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. „Þetta var bara létt spjall,“ segir Eyþór Stef­áns­son sem ásamt Steinunni Káradóttur stóð fyrir því heimamenn steyptu í síðasta mánuði þriggja metra langan kafla af Njarðvíkurskriðum.

Borg­f­irðing­ar eru orðnir langþreytt­ir á óviðun­andi ástandi í vega­mál­um, en á undirskriftalista fyrir bættum vegasamgöngum segir að Borgarfjarðarvegur nr. 94 sé Íslandi öllu til skammar. Af 70 km leið milli Borgarfjarðar og Egilsstaða séu 28 km af handónýtum malarvegi.

„Það kom svo sem ekkert mikið nýtt fram, en ráðherra sagði að hann hefði fullan hug á að grípa til einhverra ráðstafanna og láta þetta gerast,“ segir Eyþór. Auk þeirra Steinunnar sat Óttar Már Kárason einnig fundinn.

Borgfirðingar við steypuvinnuna.
Borgfirðingar við steypuvinnuna. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Leyfa sér hóflega bjartsýni

Segir Eyþór að Sigurður Ingi hafi lýsti yfir einlægum áhuga á að farið yrði í vegaframkvæmdir í Njarðvíkurskriðum samhliða lagningu sveit­ar­stjórnar Borg­ar­fjarðar á þriggja fasa rafmagni og ljósleiðara til Njarðvík­ur í sum­ar. „Þannig að sú vinna verði nýtt,“ segir hann.

Það vakti mikla athygli fjölmiðla er heimamenn steyptu sjálfir vegakafla í Njarðvíkurskriðum og segir Eyþór athyglina hafa verið margfalt meiri en þau áttu von á. „Síðan hafa heimamenn líka tekið svo vel í þetta,“ segir hann en þremenningarnir afhentu Sigurði Inga lista með 2.462 rafrænum undirskriftum. „Svo vorum við með annan lista sem á voru bara þeir heimamenn sem ekki eru jafn tæknivæddir, en sem vildu samt leggja sitt af mörkum.“

Spurður hvort að þau séu bjartsýn eftir fundinn á að eitthvað farið að gerast í vegamálum segir hann þau leyfa sér hóflega bjartsýni. „Við erum búin að læra af biturri reynslu að vera ekki of vongóð, en það hefur oft verið verra hljóð í okkur. Þess utan er sá vegakafli sem ráðherra er nú að lýsa yfir áhuga á að taka 3,2 km. Það eru hins vegar 28 km sem eru ómalbikaðir, þannig að björninn er ekkert unnin þó að af þessu verði,“ segir Eyþór.

Þau muni þó taka því rólega á næstunni og sjá hvað gerist, áður en þau reyni að vekja athygli á ástandi vegarins á ný. Ýmsar hugmyndir hafi þó komið upp um hvað megi gera. „Kannski að við höldum tónleika á Vatnsskarðinu og svo hefur verið rætt um að bjóða samgöngunefnd í heimsókn,“ segir hann. Þess sé þó mögulega ekki þörf lengur, nú þegar að búið er að ræða við ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert