Guðni sendi heillaóskir til Pútíns

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, átti fund með Vladimír Pútín …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, átti fund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í fyrra þar sem þessi ljósmynd var tekin. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi í dag heillaóskir til Valdimírs Pútíns sem var endurkjörinn forseti Rússlands um liðna helgi. 

Í kveðjunni minnti Guðni á þá skyldu þjóðarleiðtoga að vinna að öryggi og hagsæld íbúa, að því er fram kemur í tilkynningu. Brýnt sé að fulltrúar ríkja geti rætt saman af hreinskilni.

„Miklu skiptir að þjóðarleiðtogar leiti ætíð friðsamlegra lausna þar sem ófriður ríkir og styðji hvarvetna öryggi, hagsæld og einstaklingsfrelsi,“ að því er segir í tilkynningunni.

Loks segir Guðni, að þrátt fyrir miklar sviptingar á alþjóðavettvangi hafi gagnkvæm samskipti Íslands og Rússlands verið báðum ríkjum hagfelld. Heilladrjúg framtíð norðurslóða og íbúa þeirra byggist á sjáfbærri þróun, umhverfisvernd og góðri samvinnu þjóðanna sem þar búa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert