Tímabært að bjóða alvöru valkost

Nýtt sameiginlegt framboð verður kynnt í Garðabæ á morgun.
Nýtt sameiginlegt framboð verður kynnt í Garðabæ á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Viðræðuferlið hefur gengið ótrúlega vel. Ég held að fólkið sem kom sér saman að um leita þessarar leiðar, að bjóða fram sameiginlegt framboð, sé meira og minna allt á sömu línunni hvað það er sem brennur á í Garðabæ,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir sem kemur að nýju framboði í Garðabæ fyrir hönd Viðreisnar.

Þeir flokkar sem starfað hafa í minnihluta í bæjarstjórn Garðabæjar standa nú að sameiginlegu framboði sem býður fram lista í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Um er að ræða Bjarta framtíð, Samfylkinguna, Pírata, Viðreisn, Vinstri græn og óháða.

Sara Dögg stendur að framboðinu fyrir hönd Viðreisnar.
Sara Dögg stendur að framboðinu fyrir hönd Viðreisnar.

Flokkarnir hafa áður átt í viðræðum um samstarf en fyrir fjórum árum slitnaði upp úr viðræðunum á síðustu stundu. Sara Dögg að nú sé um annað fólk að ræða og margir úr hópnum séu að koma nýir inn í pólitík.

„Við erum öll meira og minna frekar ný í þessum bransa. Við erum auðvitað með núverandi bæjarfulltrúa í minnihluta með okkur, en að öðru leyti erum við nýtt og ferskt fólk sem stóð ekki að neinum viðræðum þá. Við komum svolítið óháð og frjáls inn í þetta samtal og það er frábært að upplifa það.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sterkur í Garðabænum og er nú í meirihluta, en Sara Dögg segir mikilvægt að bjóða upp á annan valkost. „Okkur finnst tímabært að virkja lýðræðið og bjóða upp á alvöru valkosti í kosningunum. Við teljum okkur vera góður valmöguleiki.“

Hvað helstu stefnumálin varðar segir hún að ýmislegt megi betur fara á mörgum sviðum þó Garðabær hafi vissulega staðið sig vel.

„Við erum svolítið á mannlegu nótunum og mennskunni. Okkur langar til að gera betur fyrir börn og ungmenni í félagslegum vanda og styðja betur við menntun barna og ungmenna í Garðabæ. Það er hægt að gera betur þar.“

Þá leggja þau áherslu á gegnsæi í stjórnsýslunni. Hún segir það skipta máli fyrir alla bæjarbúa að verklag og vinnuferli sé skýrt og upplýsandi.

„Þá er eitt stóra málið okkar að bretta upp ermar og leita leiða til að ungir Garðbæingar geti flutt aftur heim. Það er svolítið krafturinn á listanum okkar, ungt fólk sem er akkúrat þar, að stíga til baka í heimabæinn sinn. Það er ekki alltaf auðvelt.“

Listi hins sameiginlega framboðs verður kynntur á morgun, fimmtudag, á Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi, klukkan 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert