Tvöföldun frá Kaldárselsvegi hefjist 2018

Umferðin um Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð getur gengið ansi hægt
Umferðin um Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð getur gengið ansi hægt Mynd/Skjáskot úr myndbandi

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á þingmenn og samgönguráðherra að sjá til þess að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg hefjist nú þegar á árinu 2018 og verði lokið á árinu 2019. Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar sem send var þingmönnum í morgun.

Bent er á að útboðsgögn liggi fyrir og séu nánast tilbúin og því sé lögð áhersla á að vinna hefjist strax við að uppfæra útboðsgögnin.

Þá skorar bæjarstjórn á þingmenn, samgönguráðherra og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og vegamálstjóra að tryggja að fjármagn fáist á samgönguáætlun sem nú er unnið að, þannig að tryggt verði að framkvæmdum við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar ljúki á næstu fjórum árum.

Unnið verði samkvæmt tillögu samráðshóps Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarkaupstaðar um tvöföldun og varanlegar úrlausnir á gatnamótum Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af umferðinni á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð á góðum degi, en hún getur gengið ansi hægt. Myndbandið er útbúið fyrir Hafnarfjarðarbæ.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert