„Ekki óeðlilegt að hafa áhuga á útlitsþáttum“

Andri Steinþór Björnsson sálfræðingur.
Andri Steinþór Björnsson sálfræðingur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Það er ekki óeðlilegt að við höfum áhuga á útlitsþáttum í eigin fari og annarra. Áhugi á útliti liggur djúpt í mannseðlinu. Talað er um kynval í þróunarlíffræði því við erum ein af þeim tegundum sem notar meðal annars útlitsþætti þegar við veljum okkur maka. Það er innbyggt í okkur. Við fæddumst með þetta miðtaugakerfi og það er ekki okkur að kenna að við höfum þennan áhuga,” segir Andri Steinþór Björnsson sálfræðingur sem fjallar um áhrif hugsana um eigið útlit á líðan ungmenna hátíðarsal Háskóla Íslands í dag kl. 12.

Erindið er í röðinni Háskólinn og samfélagið - Best fyrir börnin og verður streymt beint frá viðburðinum á netinu.  

Í erindinu vill Andri reyna að varpa ljósi á það af hverju útlit skiptir okkur miklu máli. Hann leggur áherslu á að nálgast þetta á jákvæðan hátt í stað þess að fordæma líkt og gert er þegar notast er við orðið útlitsdýrkun. „Við erum öll á sama báti því við höfum þennan áhuga þótt við skömmumst okkar oft fyrir hann. Við fáum ýmis skilaboð frá umhverfinu og menningunni að þetta sé yfirborðsmennska og að við eigum ekki að vera svona upptekin af útliti,” segir Andri.

Hann bendir ennfremur á að skilaboðin sem við fáum frá samfélaginu um útlit eru ruglingsleg. Á sama tíma og við eigum ekki að vera að hugsa mikið um útlit eigum við samt að gera það, og þau skilaboð eru miklu sterkari.

Sálrænn vandi ef hugsað er um í klukkutíma eða meira á dag

Rannsóknir hafa sýnt að fallegt fólk er líklegra en aðrir til að ná árangri í lífinu, það fær frekar hjálp ef það óskar eftir henni, fær frekar vinnu, er líklegra til að ná sér í maka, líklegra til að geta sannfært annað fólk um eitthvað og er almennt talið hæfara, greindara og skemmtilegra en þeir sem ekki eru svona fallegir. „Þetta hefur ótrúlega mikil áhrif og við áttum okkur ekki alveg á þessum áhrifum. Sérstaklega ef við afneitum þeim,“ segir Andri.

Þessi áhugi getur farið úr böndunum og orðið að sálrænum vanda, á borð við átraskanir og líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphic disorder) sem er lítt þekkt meðal almennings en er algeng og oft alvarleg geðröskun.   

„Þetta er orðið að sálrænum vanda þegar þetta hefur mikil áhrif á líf fólks. Þegar áhyggjur af útliti valda mikilli vanlíðan og hafa áhrif á virkni. Dæmi eru um að fólk getur einangrað sig af ótta við aðra og forðast að fara út úr húsi af ótta við að aðrir munu dæma það fyrir þessi meintu líkamslýti,” segir Andri.  

Þegar fólk er með líkamsskynjunarröskun er líkamsímyndin brengluð. Þegar slíkur einstaklingur lítur í spegil samsvarar myndin sem það hefur af tilteknum líkamshluta ekki raunveruleikanum. Sú mynd sem hann sér skiptir hann miklu máli. Þetta geta verið hinir ýmsu líkamshlutar. „Fólk upplifir sig sem ljótt og að þessir líkamshlutar séu ljótir jafnvel afskræmdir en raunverulega lítur þetta fólk eðlilega út,“ segir Andri.   

Til að greinast með þetta þarf fólk að hugsa um þessa líkamshluta í minnst klukkutíma á dag, auk þess sem það bregst við þessum hugsunum með einhverjum hætti, eins og að horfa tímunum saman í spegil, bera sig endurtekið saman við annað fólk, fela líkamshluta með farða, fötum eða með öðrum leiðum, og fara í endurteknar lýtaaðgerðir.

„Það sorglega er að þeir sem eru með líkamsskynjunarröskun og leita til lýtalæknis fá yfirleitt það sem þeir biðja um. Hins vegar er þetta smám saman að breytast sem betur fer,“ segir Andri. Hann bendir á að í dag eru lýtalæknar móttækilegri fyrir því að skima fyrir þessari geðröskun og beina fólki frekar til sálfræðinga og geðlækna sem sérhæfa sig í þessum vanda. Hátt hlutfall þeirra sem fá hugræna atferlismeðferð við líkamsskynjunarröskun ná árangri.

„Það er alveg skýrt að lýtaaðgerðir eru ekki árangursríkar til að takast á við þennan vanda. Langflestir upplifa engan bata eða létti við að fara í lýtaaðgerðir. Það sem verra er að í mörgum tilfellum upplifir fólk sig enn afskræmdara,” segir Andri.

Rannsóknarsvið sem þarf að skoða nánar  

Kerfisbundnar rannsóknir á líkamsskynjunarröskun hafa einungis verið gerðar síðastliðin 20 til 30 ár og einnig hafa viðmið um skilgreiningar breyst á þessum tíma. Þetta er nokkuð stuttur tími til að meta þetta. Þrátt fyrir það eru vísbendingar sem bendir til þess að þetta sé að aukast. Talið er að tæplega 2% af öllu fólki í Vestrænum heimi þjáist af líkamsskynjunarröskun. Þetta er miklu algengari en fólk taldi upphaflega þegar rannsóknir hófust, segir Andri.

Þetta samtal um börn og ungmenni milli samfélagsins og háskólans er mjög jákvætt, segir Andri um röðina Háskólinn og samfélagið - Best fyrir börnin. „Það er vonandi gagnlegt fyrir til dæmis foreldra að geta fræðst um þennan sálræna vanda sem hægt er að fá meðferð við,“ segir Andri og bætir við: „og vonandi næ ég að gera grein fyrir þessu á aðgengilegan hátt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert