Laus úr haldi vegna hnífsárásar

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur

Landsréttur felldi á þriðjudaginn úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa ætlað að stinga sambýliskonu og barnsmóður sína með hníf fyrir um tveimur vikum. Hafði héraðsdómur úrskurðað manninn í eins mánaðar gæsluvarðhald, en Landsréttur taldi ekki að maðurinn væri undir nægjanlega sterkum grun um að hafa ætlað að bana konunni.

Lögreglan á Suðurnesjum var kölluð út vegna málsins um miðja nótt þann 9. mars, en konan sagði að hún og maðurinn hefðu rifist og hann sakað hana um framhjáhald. Hann hafi gripið hníf og hún í kjölfarið flúið út. Þar hafi maðurinn náð henni og hent henni í jörðina og sagst ætla að stinga hana nema hún myndi segja frá meintu framhjáhaldi.

Konan sagði manninn hafa fleygt frá sér hnífnum þegar lögregla var að koma á svæðið og keyrt í burtu. Á úlpu konunnar var svo að finna gat eftir hnífinn við hjartastað. Fann lögreglan tvo hnífa á vettvangi.

Lögreglan hefur áður haft afskipti af manninum vegna sambærilegs máls í nóvember og segir konan að í þremur öðrum tilfellum á síðasti ári hafi hann beitt sig ofbeldi, meðal annars í október á síðasta ári, en þá var konan gengin sjö mánuði með barn þeirra.

Taldi lögreglan að meint brot mannsins vörðuðu við 211. grein almennra hegningarlaga með vísun til 20. greinar sömu laga, en það á við um mál þar sem gerandi hefur tekið ákvörðun um að vinna manndráp og „ótvírætt sýnt þann ásetning í verki,“ án þess að brotið sé fullframið. Varðar slíkt brot allt að 16 ára fangelsi.

Við skýrslutöku hjá lögreglu fór konan fram á manninum yrði gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili.

Sem fyrr segir taldi Landsréttur ekki að maðurinn væri undir sterkum grun um að hafa gerst brotlegur við fyrrnefnd ákvæði almennra hegningarlaga og felldi því varðhaldsúrskurðinn úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert