Fjölskyldur „á flótta“ í Heiðmörk

Þátttakendur í hlutverkaleiknum snæddu morgunverð og ræddu raunir næturinnar á …
Þátttakendur í hlutverkaleiknum snæddu morgunverð og ræddu raunir næturinnar á rýnifundi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Ungmennahópur Rauða krossins stóð í gærkvöldi og í nótt fyrir hlutverkaleiknum „Á flótta“ og stóð viðburðurinn yfir í um tólf klukkustundir. Um er að ræða hlutverkaleik þar sem þátttakendur setja sig í spor flóttamanna.

Að sögn Þorsteins Valdimarssonar, verkefnastjóra ungmennastarfs Rauða krossins, er leiknum ætlað að vekja þátttakendur til umhugsunar um aðstæður flóttamanna víðsvegar um heim. Mæting var góð og tókst sjálfboðaliðum Rauða krossins vel til við að líkja eftir erfiðum aðstæðum þeirra sem flýja heimkynni sín.

„Verkefnið gengur út á að bjóða ungu fólki að setja sig í stutta stund inn í þær aðstæður sem flóttafólk býr við dögum og árum saman. Þetta er tilraun til að vekja samkennd meðal ungs fólks á Íslandi,“ segir Þorsteinn.

Að þessu sinni hófst för flóttamannanna í Breiðholti og nágrenni og henni var heitið inn í Heiðmörk. Ellefu sjálboðaliðar Rauða krossins tóku þátt að þessu sinni.

„Leikurinn felur í sér talsverða göngu og er hlutverkaleikur (e. Live action roleplay) og sjálfboðaliðarnir okkar setja sig í hlutverk tollvarða, smyglara, hermanna, lækna, sálfræðinga o.s.frv. Þátttakendurnir í leiknum, sem setja sig í spor flóttafólksins, mætir þessu fólki á leiðinni,“ segir hann. 

Hópurinn skilaði sér á áfangastað í morgun, en flestir voru orðnir örþreyttir eftir raunir næturinnar.

Örþreytt fjölskylda þiggur máltíð dagsins hjá starfsmanni flóttamannabúða, soðin hrísgrjón.
Örþreytt fjölskylda þiggur máltíð dagsins hjá starfsmanni flóttamannabúða, soðin hrísgrjón. Ljósmynd/Aðsend

Þátttakendur mynda fjölskyldur

Reynt er að líkja sem best eftir aðstæðunum og þátttakendur skilja auðkenni sín og persónu einnig eftir áður en haldið er af stað.

„Við skiptum þátttakendur niður í fjölskyldur og allir fá nafn og kyn sem þurfa ekki að endurspegla þeirra eigin. Við reynum að líkja eftir fjölskyldugerðunum og einhver er höfuð fjölskyldunnar og sér um samskipti út á við. Yfirleitt eru um fimm til sjö manns í hverri fjölskyldu og nú voru þær tvær,“ segir Þorsteinn.

„Það er margt líkt í reynsluheimi allra þeirra sem þurfa að yfirgefa heimili sín og halda út í óvissu. Leikurinn tók þó að þessu sinni mið af aðstæðum flóttamanna frá Sómalíu, en það er í raun hægt að nota grunnhugmyndina að þessum leik og yfirfæra á hvaða mannúðarkrísu sem er,“ segir hann.

„Þetta er verkefni sem hefur verið í gangi síðan árið 1998 hér á Íslandi og lengur úti í Danmörku. Þetta var reglulega gert allt til ársins 2013 og síðan endurvöktum við þetta síðasta haust,“ segir Þorsteinn.

Aðspurður segist hann telja að hlutverkaleikurinn hafi tilætluð áhrif, að þátttakendur geri sér betur grein fyrir aðstæðum flóttamanna.

„Við héldum rýnifund eftir leikinn og ég sé ekki annað en að fólk láti sig þessi mál meiru varða,“ bætir Þorsteinn við.







mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert