Stöðug fólksfækkun á landsbyggðinni

Frá árgangagöngu á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Frá árgangagöngu á Ljósanótt í Reykjanesbæ.

Fólksfjölgun verður á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og fólki á landsbyggðinni mun fækka stöðugt. Þetta kemur fram í mannfjöldaspá Byggðastofnunar til ársins 2066 fyrir sérhvert sveitarfélag á Íslandi.

Helstu ástæðurnar eru samverkandi áhrif lækkandi frjósemishlutfalls og flutningur ungs fólks á höfuðborgarsvæðið sem ekki skilar sér aftur til baka.

Einnig breytist aldurssamsetning þjóðarinnar samkvæmt spánni og til dæmis má búast við að hlutfall þeirra sem eru eldri en 65 ára hækki úr 13% árið 2017 og verði á milli 20 og 30% í lok spátímabilsins.

Í tilkynningu frá Byggðastofnun er tekið fram að spáin taki ekki mið af mögulegum mótvægisaðgerðum eða öðrum breytingum sem væru til þess fallnar að hafa staðbundin áhrif.

Spáin byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands um fæðingar- og dánartíðni frá árinu 1971 og búferlaflutninga frá 1986.

Byggðastofnun hefur útbúið spá um þróun mannfjölda eftir sveitarfélögum.
Byggðastofnun hefur útbúið spá um þróun mannfjölda eftir sveitarfélögum. mbl.is/Sigurður Bogi

Dregur úr barnsfæðingum á landsbyggðinni

Fram kemur að búferlaflutningar ungs fólks um tvítugt utan af landi á höfuðborgarsvæðið séu áberandi þar sem konur eru greinilega í meirihluta. Þetta fólk virðist ekki skila sér mikið til baka.

Þetta veldur því að það fækkar í árgöngum ungs fólks á landsbyggðinni sem aftur dregur úr barnsfæðingum seinna meir. Að sama skapi fjölgar í árgöngum ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu sem stuðlar að auknum barnsfæðingum þegar fram í sækir. Þetta, ásamt hækkandi meðalaldri og lækkandi frjósemishlutfalli, virðast vera stóru línurnar í mannfjöldaþróun á Íslandi, að því er kemur fram í spánni.

Samkvæmt mannfjöldaspá Byggðastofnunar eru afleiðingarnar þær að fólki heldur áfram að fjölga á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar þar sem fólksfækkun er víða viðvarandi.

Skýrsla Byggðastofnunar í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert