Tryggt að engir maurar urðu eftir

Farþegar vélarinnar gátu nálgast farangur sinn nokkrum klukkustundum eftir lendingu.
Farþegar vélarinnar gátu nálgast farangur sinn nokkrum klukkustundum eftir lendingu. mbl.is/Golli

Flugvél WOW air sem sett var í sóttkví á flugvellinum á Montreal í fyrrakvöld, eftir að maurar fundist um borð í henni á leið frá Íslandi í fyrradag, er nú komin aftur til landsins eftir að hafa verið meðhöndluð samkvæmt stöðluðum verkferlum. Tryggt var að engir maurar urðu eftir í vélinni, að fram kemur í svari WOW air við fyrirspurn mbl.is. Aðgerðunum var stjórnað af tolla- og landbúnaðaryfirvöldum í Kanada.

Greint var frá atvikinu á kanadíska fréttavefnum CBC en þar var rætt við farþega sem sagði maurana hafa komið út úr einu farangurshólfi vélarinnar. Þegar vart varð við maurana lét flugstjóri vélarinnar flugvallaryfirkvöld í Montreal vita af stöðu mála og tók starfsfólk flugvallarins ásamt viðeigandi yfirvöldum á móti vélinni við lendingu.

Farþegar urðu að skilja eftir allan farangur í vélinni, þar á meðal handtöskur og yfirhafnir. Í svari WOW air segir að farþegar hafi verið látnir fylla út eyðublöð þegar þeir komu úr vélinni þar sem þeir tilkynnti þann farangur sem eftir varð. Þannig var passað upp á að réttur farangur skilaði sér til hvers farþega.

Farþegar fengu svo leiðbeiningar um hvernig þeir gætu nálgast farangurinn aftur, en það var hægt nokkrum klukkustundum eftir lendingu.

Hafði þessi uppákoma það í för með sér að töluverð seinkun varð á vélinni frá Montreal og hluti farþeganna missti af tengiflugi sínu. Var þeim farþegum veitt hótelgisting á Íslandi yfir nótt og er nú unnið að því að koma öllum farþegum á áfangastaði sína eins fljótt og mögulegt er, að segir í svari WOW air.

Ekki er enn vitað um hvernig maura var að ræða, en þetta er í fyrsta skipti sem atvik af þessu tagi kemur upp í vél WOW air.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert