Fólk virðir ekki lokun við Fjaðrárgljúfur

Svæðið við Fjaðrárgljúfur verður lokað til 1. júní að öllu …
Svæðið við Fjaðrárgljúfur verður lokað til 1. júní að öllu óbreyttu. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Erfiðlega gengur að fá fólk til þess að virða lokun á svæðinu við Fjaðrárgljúfur. Svæðinu var fyrst lokað 16. mars og lokunin svo framlengd til 28. mars. Mikið álag hefur verið á göngustígnum og umhverfi hans.

Fólk fer þangað sem það ætlar sér

Pálmi Harðarson, bóndi á Hunkubökkum, segir fólk ekki endilega virða lokunina sem slíka. „Vegurinn er lokaður, það er girðing yfir veginn og þar leggur fólk bílum og síðan labbar það bara að Fjaðrargljúfri.“ Hunkubakkar á Síðu eru við Lakaveg í 2 kílómetra fjarlægð frá Fjaðrárgljúfri. 

Hann bendir á að ítrekað hafi verið sagðar fréttir af því að fólk virði ekki lokanir, til dæmis við Gullfoss. „Það eru borðar og það er lokað en fólk bara fer yfir þetta og fer þangað sem það ætlar sér.“ Hann telur að ef lokunin eigi að bera árangur þurfi að vera manneskja á staðnum sem passar upp á að fólk virði ekki lokun að vettugi. „Því miður þá er það bara þannig.“

Fjaðrárgljúfur er mikil náttúruperla.
Fjaðrárgljúfur er mikil náttúruperla. Ljósmynd/Gísli Sigurðsson

Miserfitt að fylgja lokunum eftir

Ólafur A. Jónsson, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við mbl.is oft praktíska erfiðleika við lokanir. Það geti verið miserfitt að fylgja þeim eftir því koma ferðamanna á svæði geti verið á marga vegu.

Hann segir meiri vandræði með það að fólk sé að fara inn á svæðið við Fjaðrárgljúfur en við Reykjadal til dæmis. Það sé þó ekki almennt. „Fólk virðir lokunina almennt en það eru alltaf einhverjar undantekningar. Við erum misgóð í því að hlíta reglum,“ segir Ólafur.

Merkingar mættu vera ítarlegri

Ekki sé landvarsla í Fjaðrárgljúfri allan sólahringinn, enda hafi þau ekki ráð á að vera með slíkt. Hann telur ástæður þess að fólk virði ekki lokunina þar geta verið margvíslegar. „Ég veit ekki hvort það spilar inn í að þetta er svona fjarri öðrum ferðamannastöðum, fólk hugsanlega búið að keyra langt, það gæti haft áhrif.“

Þá segir hann merkingar geta verið betri. „Það er í vinnslu hjá okkur að merkja með skýrum hætti hver ástæða lokunar er. Við erum bara með almenn lokunarskilti,“ segir hann og bætir við að dæmi séu um að fólk hafi farið framhjá lokunarskiltum því það teldi svæði lokað vegna öryggismála. „En maður skilur ekki alveg af hverju fólk fer fram hjá út af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert