Spjaldtölvuvæðing skóla rannsökuð

„Við hefðum kosið að áður en verkefnið hófst hefði staðan verið tekin þannig að við gætum metið árangur barnanna,“ segir Erling Ragnar Erlingsson sviðsstjóri miðlunarsviðs hjá Menntamálastofnun um spjaldtölvuvæðingu í grunnskólum.

Þar hefur Kópavogsbær verið í fararbroddi en framundan er mat á verkefninu. Reynt verður að leggja mat á áhrif og ávinning af spjaldtölvuvæðingunni en tveir árgangar í grunnskólum bæjarins hafa spjaldtölvur sem þeir nota í skólanum og heima við. 

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, kallaði eftir því í samtali við mbl.is í gær að spjaldtölvuvæðing í grunnskólum væri tekin til endurskoðunar og að áhrif hennar væru rannsökuð.

Erling segist vera meðvitaður um þessa gagnrýni og vita til þess að foreldrar hafi látið í ljósi óánægju með að börnum séu afhentar spjaldtölvur til að hafa með sér heim úr skólum. Skólarnir séu þó á forræði sveitarfélaganna og því sé það ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á þeim þætti verkefnisins. 

„Hinsvegar erum við sammála því að þetta getur verið inngrip og haft áhrif á börnin og heimilislífið. Ég tala nú ekki um ef að foreldrar þurfa að slökkva á netinu til að börnin hætti að nota tölvurnar.“ Spjaldtölvuvæðing hafi mun viðameiri afleiðingar en aðgerð á borð við að skipta út námsefni í íslensku eða stærðfræði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert