Hjúkrunarfræðingar kjósa flugið frekar

Landspítali – háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali – háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Okkur finnst þetta alvarlegt,“ sagði Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs Landspítala, í Kastljósi á RÚV í kvöld. Stjórn læknaráðs sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem lýst var yfir áhyggjum af viðvar­andi skorti á legu­rým­um á gjör­gæslu­deild­um spít­al­ans og ít­rekuðum frest­un­um stærri aðgerða í kjöl­farið.

Ebba sagði að það væri auðvitað alvarlegt að í fyrra hafi 56% af öllum hjartaaðgerðum verið frestað. 36% þeirra var frestað vegna plássleysis á gjörgæslu og sagði Ebba að það kæmi stundum ekki í ljós fyrr en fyrirhugaðan aðgerðadag.

Ebba sagði að aðalmálið væri ekki plássleysi, heldur frekar skortur á starfsfólki. Í dag vanti á annað hundrað hjúkrunarfræðinga til starfa á Landspítalanum.

Þessar stéttir hafa menntað sig vel og lengi en kjósa að vinna við eitthvað annað. Við sjáum á leið til útlanda að í nánast hverri flugferð er hjúkrunarfræðingur sem er flugfreyja. Þær velja þetta frekar,“ sagði Ebba og bætti við að það þurfi að gera starfið á spítalanum aðlaðandi.

Hún sagði að hjúkrunarfræðingarnir fengju betri laun í störfum sínum sem flugfreyjur og auk þess væri ábyrgðin minni og vaktirnar færri. Ebba hefur áhyggjur af þessu og sagði að það þurfi að bjóða hjúkrunarfræðingum betri aðstöðu og hærri laun.

mbl.is

Bloggað um fréttina