13,7 milljónir í lagfæringar í Reykjadal

Svona var umhorfs á göngu­leiðinni inn í Reykja­dal í Ölfusi …
Svona var umhorfs á göngu­leiðinni inn í Reykja­dal í Ölfusi í lok mars. Svæðið hefur verið lokað í tvær vikur og hefur Umhverfisstofnun óskað eftir að lokunin verði framlengd um fjórar vikur. Ljósmynd/Adolf Ingi Erlingsson

Umhverfisstofnun telur mikilvægt að svæði við Reykjadal í Ölfusi verði lokað áfram í fjórar vikur. Svæðinu var lokað 31. mars vegna átroðnings og gróðurskemmda. Lagfæringar á göngustígum og merkingum á svæðinu standa nú yfir og hefur sveitarfélagið Ölfus fengið 13,7 milljóna króna styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til lagfæringa á svæðinu.

Starfsmaður Umhverfisstofnunar gerði úttekt á svæðinu í gær og þá óskaði stofnunin eftir umsögnum hagsmunaaðila varðandi framlengingu á umræddri lokun. Ein umsögn barst frá landeigendum. 

Lokunin framlengd um fjórar vikur

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að stofnunin hafi ákveðið að framlengja lokunina í  fjórar vikur að höfðu samráði við sveitarfélagið, landeiganda, hagsmunaaðila og með staðfestingu ráðherra samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd. Svæðið verður opnað um leið og aðstæður leyfa eða eigi síðar en 12. maí næstkomandi.

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, telur þó ekki líkur á því að Umhverfisstofnun muni nýta lokunarheimildina allar fjórar vikurnar. „Við munum svo fylgja þessu eftir með reglum og úttektum á ástandi og bregðast við með því að opna ef ástand leyfir,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sveitarfélagið Ölfus fékk úthlutað styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem er rekinn af Ferðamálastofu, í síðasta mánuði að upphæð 13,7 milljónir til að fara í uppbyggingu á svæðinu og eru framkvæmdir þegar hafnar á um 600 metra kafla þar sem ástand svæðisins var hvað verst. Lagfæringarnar snúa að göngustígum, merkingum og heimild til að gera breytingar á deiluskipulagi á salernisaðstöðu á útivistarsvæðinu í Reykjadal.

Lagfæringar á göngustígnum eru hafnar og fékkst heimild hjá Umhverfisstofnun til að fara inn á svæðið. „Framkvæmdum er ekki lokið og við erum bíða eftir að fá frekari meldingu um það hvenær framkvæmdum ljúki,“ segir Ólafur.  

Reykjadalurinn skartaði sínu fegursta í fyrrasumar og til stendur að …
Reykjadalurinn skartaði sínu fegursta í fyrrasumar og til stendur að koma svæðinu í samt horf. mbl.is/Golli

Lokuninni sýndur skilningur

Vel hefur gengið að viðhalda lokun á svæðinu að sögn Ólafs. „Á meðan við erum með starfsmann á svæðinu á daginn þá hefur þetta gengið mjög vel. Það hefur sýnt sig að það er þörf á því til að fylgja lokuninni eftir, sérstaklega til að upplýsa fólk sem hefur ekki frétt af lokuninni, sem eru aðallega erlendir ferðamenn. En það eru allir sem sýna þessu skilning.“

Ólafur segir að það ríki mikill vilji meðal allra sem koma að svæðinu að koma því í betra horf. „Nú er bara að leyfa náttúrunni aðeins að eiga næsta skref í sjálfu sér og framkvæmdir eftir því sem aðstæður leyfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert