Undirbúa viðbyggingu við Stjórnarráðið

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu.
Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdasýsla ríkisins býður til tveggja opinna samkeppna fyrir hönd forsætisráðuneytisins. Annars vegar er um að ræða framkvæmdasamkeppni um 1.200 m² viðbyggingu við gamla Stjórnarráðshúsið í Reykjavík og hins vegar hugmyndasamkeppni um skipulag svokallaðs Stjórnarráðsreits sem markast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.

Fram kemur á vef Framkvæmdasýslu, að viðbyggingin eigi m.a. að hýsa flestar skrifstofur forsætisráðuneytisins, fundarrými og aðstöðu fjölmiðla. Einnig þurfi að endurskoða innra skipulag Stjórnarráðshússins og tengja það við viðbygginguna, sem fyrirhuguð er aftan við húsið. Gert er ráð fyrir að vígsla byggingarinnar gæti orðið um áramót 2021/22.

Markmið með samkeppninni um skipulag Stjórnarráðsreits sé meðal annars að fá fram lausn þar sem áhersla verði lögð á raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á skipulagi á reitnum þannig að byggja megi upp á heildstæðan hátt framtíðarhúsnæði ráðuneyta, stofnana ríkisins og dómstóla, meðal annars með hagræðingu í huga.

Samkeppnirnar má rekja til þess að í  október árið 2016 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að efna til hátíðarhalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Meðal þess sem ríkisstjórninni var falið að gera af því tilefni var að efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulag á Stjórnarráðsreit. 

Vefur Framkvæmdasýslu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina