Framsókn sýknuð af kröfu almannatengils

Framsóknarflokkurinn var sýknaður af kröfu mannsins upp á rúmlega 5,5 …
Framsóknarflokkurinn var sýknaður af kröfu mannsins upp á rúmlega 5,5 milljónir vegna vinnu við almannatengsl sem framkvæmdastjórn flokksins samþykkti aldrei. mbl.is/Styrmir Kári

Framsóknarflokkurinn var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfu félagsins Forystu ehf. vegna rúmlega 5,5 milljóna kröfu vegna starfa í tengslum við þingkosningar 2016. Í dóminum kemur meðal annars fram að Viðar Garðarsson, eigandi Forystu, hafi ekki átt að tjá sig við fjölmiðla eða greina opinberlega frá því í hverju meint starf hans fyrir flokkinn var fólgið. Þá kemur einnig fram að eiginmaður borgarfulltrúa hafi verið fenginn til að framkvæma greiningu á því „hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð [Gunnlaugssyni] erfiðastir“.

„Akkúrat maðurinn sem þyrfti“

Forsaga málsins nær til fyrri hluta ársins 2016 þegar Panama-skjölin höfðu verið mikið í umræðunni. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hafði leitað til Viðars vegna mikillar umræðu tengdri Framsóknarflokkinum, en í skjölunum komu fram nöfn Sigmundar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Hrólfs Ölvissonar. Sveinbjörg var á þeim tíma borgarfulltrúi flokksins og Hrólfur framkvæmdastjóri hans.

Guðfinna benti svo Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi formanni flokksins, á að hugleiða að fá sér almannatengil og kynnti Viðar fyrir Sigmundi. Lýsti Guðfinna því að hana minnti að Sigmundur Davíð hefði sagt að Viðar „væri akkúrat maðurinn sem þyrfti“. Fundaði hann í kjölfarið með Sigmundi, Lilju Alfreðsdóttur, varaformanni flokksins, og Sigurði Hannessyni sem var kynntur sem formaður málefnanefndar flokksins. Síðar fundaði Viðar einnig með Hrólfi þar sem hann kynnti hugmynd sína um 100 milljóna kosningabaráttu flokksins, en Hrólfur hafi upplýst um að flokkurinn ætti ekki slíka fjármuni.

Almannatengill sem átti ekki að greina frá starfi sínu

Viðar skrifaði bréf til framkvæmdastjórnar flokksins vegna fyrirhugaðra starfa sinna, en þar kemur meðal annars fram að um sé að ræða hlutverk almannafulltrúa sem heyri beint undir formann flokksins og hafi ritstjórnarvald á öllu auglýsinga- og kynningarefni flokksins á landsvísu. Átti samkomulagið að gilda frá samþykki framkvæmdastjórnar og formanns fram yfir kosningarnar. Engin staðfesting var hins vegar kynnt við meðferð málsins í héraði, en Viðar taldi að samþykki hefði komið frá formanni.

Viðar Garðarsson, eigandi Forystu ehf.
Viðar Garðarsson, eigandi Forystu ehf. mbl.is/Árni Sæberg

Í skilmálabréfi Viðars til framkvæmdastjórnarinnar kom einnig fram að honum væri „með öllu óheimilt að tjá sig við fjölmiðla eða greina opinberlega frá því í hverju starf hans er fólgið. Á þetta bæði við á meðan þjónustunni stendur og einnig eftir að henni lýkur.“

Greiningarvinna á fjölmiðlamönnum

Fram kemur í dóminum að Viðar hafi skipulagt myndatöku fyrir Sigmund og látið smíða vefsíðuna panamaskjolin.is, sem Sigmundur átti að geta vísað í þegar málefni tengd Panama-skjölunum kæmu upp í kosningabaráttunni. Þá hafi hann látið smíða síðuna islandiallt.is sem hafi átt að „sækja fram“.

Eiginmaður Guðfinnu hafði komið að vinnu Forystu í einhverjum hluta þessara mála og sagðist Viðar fyrir dómi hafa fengið hann til að vinna „ákveðna greiningarvinnu, hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir“.

Sagði vinnuna fyrir kosningaherferð Sigmundar

Ljósmyndarinn sem tók að sér framangreint verk staðfesti fyrir dómi að hann hefði aðeins unnið efni fyrir kosningaherferð Sigmundar og vinna hans meðal annars falist í að klippa búta úr ræðu Sigmundar af miðstjórnarþingi til að birta á heimasíðu Sigmundar.

Fjölmargt áhrifafólk í Framsóknarflokkinum bar vitni í málinu, en Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi formaður, sagðist ekkert hafa þekkt til vinnu Viðars á þessum tíma. Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri flokksins á þessum tíma, og Eygló Harðardóttir, þáverandi ritari, báru einnig fyrir dómi að bréf Viðars hafi ekki verið lagt fyrir framkvæmdaráð flokksins.

Í lok ársins sendi Sigmundur bréf til Forystu þar sem hann greindi frá því að hann hefði greitt tæplega 1,1 milljón til félagsins vegna útlagðs kostnaðar sem Sigmundur sagðist hafa gengist í ábyrgð fyrir. Vísaði Sigmundur til þess að treglega hefði gengið að innheimta skuldina fyrir Viðar og að það væri meðal annars vegna óvissu sem hefði verið um verkskiptingu milli Hrólfs og Einars Gunnars, sem tók við af Hrólfi sem framkvæmdastjóri eftir að Panama-skjölin voru birt en gerðist formaður kosningastjórnar.

Skorti heimild framkvæmdastjórnarinnar

Í niðurstöðu dómsins segir að í bréfi Viðars til framkvæmdastjóra um samstarfið hafi hann sérstaklega tekið fram að heimild þurfi frá framkvæmdastjórn. Viðar geti því ekki gert ráð fyrir að verksamningur hafi komist á nema með staðfestingu, sem ekki sé að finna í fundargerðum eða öðrum gögnum framkvæmdastjórnar. „Í ljósi þessa gat fyrirsvarmaður stefnanda ekki gengið þess dulinn að hann vantaði tilskilið samþykki þar til bærra aðila innan Framsóknarflokksins um að starfa fyrir flokkinn á þeim forsendum sem krafa hans lýtur að,“ segir í niðurstöðunni.

Þarf Forysta ehf. jafnframt að greiða Framsóknarflokkinum 1,1 milljón í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert