Vísar ummælunum til föðurhúsanna

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvað í ræðumennsku háttvirts þingmanns telur hún að grafi undan dómstólum landsins?“ spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

Þar átti Þórhildur við það sem Sigríður sagði um ræðu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, í umræðum um nýjan endurupptökudómstól á Alþingi í síðustu viku.

Áður hafði Þórhildur minnst á það í ræðu sinni að Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið lög er hún skipaði dómara við Landsrétt.  

Sigríður svaraði Þórhildi Sunnu þannig að hún hafi átt orðastað við ýmsa þingmenn, bæði í ræðum og andsvörum, vegna fullyrðinga þeirra um að grafið hafi verið undan dómstólum í framkvæmd við skipun Landsréttar.

Ráðherra sagðist vísa slíkum ummælum til föðurhúsanna og sagði þau til þess fallin fremur en margt annað að grafa undan trausti og trúverðugleika stofnana ríkisvaldsins.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert