Búast má við 14 stiga hita í dag

Svona lítur spákortið út klukkan 14 í dag.
Svona lítur spákortið út klukkan 14 í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Útlit er fyrir þokkalegasta veður á stærstum hluta landsins í dag, bæði þurrt og vindur hóflegur, en þó verður hann allhvass með suðurströndinni og það rignir um landið suðaustanvert. Lægðin beinir til okkar hlýjum loftmassa ættuðum úr suðaustri og nær hiti væntanlega 14 stigum í aflandsvindi á vesturhelmingi landsins í dag.“

Þetta segir veðurfræðingur Veðurstofu Íslands í hugleiðingum sínum um veðrið í dag og næstu daga á vef stofnunarinnar. Hann bendir á að nú sé mjög djúp lægð stödd langt suður í hafi, nánar tiltekið er hún 943 mb, og miðja hennar er 1.700 km suðsuðvestur af Reykjanesi. „Lægðin er sérlega víðáttumikil og dreifir úr sér yfir stærstan hluta Norður-Atlantshafs.“

Svo segir:

„Títtnefnd lægð ræður öllu í veðrinu hjá okkur og í kvöld sendir hún skil að landinu og þá hvessir og bætir í úrkomu. Seint í kvöld má búast við strekkingi eða allhvössum vindi svona heilt yfir, en þá er útlit fyrir storm og snarpar hviður syðst á landinu og við Öræfajökul og varir það ástand fram eftir þriðjudagsmorgni.“

Köflótt rigning

Á morgun, þriðjudag, má búast við stífum austanvindi og áfram verður hlýtt miðað við árstíma. Talsverð rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en köflótt rigning í öðrum landshlutum. 
Á miðvikudag gera spár ráð fyrir sunnanstrekkingi og vætusömu veðri, en þurrt og hlýtt á Norður- og Austurlandi. 

Seinni hluta vikunnar er síðan útlit fyrir hægan vind, það dregur úr úrkomunni og hitatölurnar síga niður á við.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert