Meirihluti andvígur áfengisauglýsingum

AFP

Meirihluti landsmanna segist vera andvígur því að leyfa birtingar áfengis- og tóbaksauglýsinga samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var í janúar.

Rúmlega 60% svarenda sögðust andvíg því að áfengisauglýsingar væru heimilaðar en þar af sögðust tæp 42% vera mjög andvíg því. Stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga var 18%.

Fram kemur í tilkynningu, að það veki athygli að afstaða virðist nokkuð breytileg eftir kyni og aldri en karlmenn sögðust hlynntari birtingu slíkra auglýsinga en konur, auk þess sem andstaða gegn þeim jókst með aldri.

Þá segir, að afgerandi afstaða hafi verið gegn heimilun á birtingu tóbaksauglýsinga og lýstu 85% svarenda sig á móti heimilun slíkrar birtingar en alls 72% svarenda sem sögðust mjög andvígir henni. Stuðningur við heimilun slíkra auglýsinga var öllu minni en stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga, eða um 5,5%.

Könnunin var framkvæmd dagana 25. janúar til 30. Janúar 2018 og var heildarfjöldi svarenda 928 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert