Hefur valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum

Fram kemur meðal annars í minnisblaði sem Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tók saman að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins um svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins að hann haggi í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum sem eru í opinberri eigu eins og þegar sé gert íslenskum lögum.

Þriðji orkupakkinn haggi ennfremur í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins séu nýttar og hvaða orkugjafar séu nýttir hér á landi. ACER, samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni ekki hafa neitt að segja til dæmis um fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér „óverulegar breytingar“ í því sambandi.

Sömuleiðis segir að ACER hefði engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum á Íslandi heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum og að samið hafi verið um að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER heldur ESA. Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir væru „að meginstefnu bundnar við ákvæði sem gilda um orkumannvirki sem ná yfir landamæri“ eins og til dæmis sæstrengi og ættu ekki við hér á landi nema til slíkra mannvirkja kæmi.

Þá segir að þriðji orkupakkinn haggi því ekki að það sé á forræði Íslands að ákveða hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins hvort íslenska ríkið ætti að vera eigandi að honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina