Fengu styrk vegna vísindaverkefna

Páll Matthíasson, Einar Stefánsson, Brynja Ingadóttir og Hildur Harðardóttir.
Páll Matthíasson, Einar Stefánsson, Brynja Ingadóttir og Hildur Harðardóttir. Ljósmynd/Landspítali

Brynja Ingadóttir hjúkrunarfræðingur og Einar Stefánsson læknir fengu eina og hálfa milljón króna hvort í styrk úr Minningargjafasjóði Landspítala Íslands fyrir vísindaverkefni sín. Styrkirnir voru afhentir á Vísindum á vordögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítala.

Brynja hlaut styrkinn vegna verkefnisins „Þróun og prófun á tölvukennsluleik til að búa börn fyrir svæfingu“ og Einar vegna verkefnisins „Súrefnismettun sjónhimnuæða í ýmsum sjúkdómum.

Verkefni Brynju snýr að tölvukennsluleik sem á að fræða börn á aldrinum 4-7 ára um hvað þau eiga í vændum þegar þau fara í svæfingu. Segir í tilkynningunni að hræðsla og kvíð barna fyrir svæfingu sé algengt vandamál. 

Leikurinn er ævintýraferð með sögumanni sem lýkur í kastala þar sem má finna móttökuherbergi svæfingar og skurðstofu. Á leiðinni leysir barnið þrautir sem bæði hafa fræðslugildi og kenna því bjargráð til að minnka kvíða og hræðslu við það sem framundan er.

Um verkefni Einars segir að augun séu ekki bara gluggi sálarinn, þau eru líka gluggi að líkamanum en augað er eina líffærið þar sem æðakerfið og miðtaugakerfið eru sýnileg.

Tækni sem þróuð hefur verið á Landspítalanum og við Háskóla íslands notar sýnilegt ljós til að mæla súrefnisinnihald æða í sjónhimnum. Með þessu móti má meta efnaskipti sjónhimnu í ýmsum augnsjúkdómum, efnaskiptabreytingar í heilasjúkdómum og almennt súrefnisástand líkamans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert