Kveður Hörpu vegna kostnaðar

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. mbl.is/Árni Sæberg

Jazzhátíð Reykjavíkur verður ekki haldin í Hörpu í ár vegna of mikils kostnaðar. Þess í stað snýr hátíðin aftur í miðbæinn þar sem vonast er til að smærri staðir muni endurvekja klúbbastemningu fyrri tíðar.

„Þetta var mjög stór biti í rekstri hátíðarinnar,“ segir Leifur Gunnarsson, annar af framkvæmdastjórum hátíðarinnar. „Ég er ekkert alveg viss um að þetta komi út mikið hagstæðara í ár en við erum að prófa að fara aðra leið.“

Aðspurður segir hann að Harpa hafi ekki ætlað að hækka leiguverðið vegna Jazzhátíðar og nefnir að hann hefði viljað vera áfram í húsinu, alla vega með hluta af hátíðinni, en það hafi reynst of þungur biti.

„Það að stokka svona rækilega upp í þessu er bara spennandi og ég vona að sem flestum finnist það líka.“

Frá Jazzhátíð Reykjavík.
Frá Jazzhátíð Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantar hentugan sal 

Leifur var viðloðandi Jazzhátíð áður en hún fór í Hörpu, þar sem fjórar síðustu hátíðir hafa verið haldnar að fullu, og segir hann það hafa verið mikinn lúxus að komast þangað. Þar hafi verið hægt að bjóða upp á gæði sem erlendir tónlistarmenn sem koma til að spila á hátíðinni búist við.

Að sögn Leifs hefur húsnæði Hörpu engu að síður ekki verið hugsað til enda á sínum tíma því algjör vöntun sé á sal sem er minni en Norðurljós en stærri en Kaldalón. „Það er til ákveðin tegund af tónlist sem laðar ekki að 500 manns og það þarf að vera salur sem tekur við svoleiðis viðburðum.“

Hann bætir þó við að samstarfi við Hörpu hafi verið mjög náið og gott og útilokar hann ekki að hátíðin verði haldin aftur að ári í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.

Bassaleikarinn Leifur Gunnarsson, annar af framkvæmdastjórum Jazzhátíðar Reykjavíkur.
Bassaleikarinn Leifur Gunnarsson, annar af framkvæmdastjórum Jazzhátíðar Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Marilyn Mazur stígur á svið 

Hátíðin í ár fer fram dagana 5.-9.september og er nú unnið að því hörðum höndum að því að loka dagskránni. Í tilkynningu kemur fram að tónleikastaðirnir verða Iðnó, Tjarnabíó, Hannesarholt og Grand Hótel.

Á laugardagskvöldinu stígur á svið í Gullteigi á Grand Hótel slagverksleikarinn Marilyn Mazur. Hún kemur til landsins með Shamina sem er tíu kvenna band skipað þungavigtarhljóðfæraleikurum og dansara frá Skandinavíu.

Leifur bendir á að Mazur hafi unnið það sér til frægðar að hafa eitt sinn spilað með Miles Davis.

Erfið samkeppni við Hinsegin daga

Hann nefnir einnig að búið sé að færa hátíðina aftur um mánuð vegna erfiðrar samkeppni við Hinsegin daga sem hafa verið haldnir á sama tíma, auk þess sem margir séu enn í sumarfríi á þessum tíma.

Um þrjú til fjögur þúsund manns sóttu Jazzhátíð á síðasta ári en hátíðin stendur yfir í fimm daga.

Leifur tekur fram að Íslendingar hafi verið um 80% fastagesta á hátíðinni og vonast hann til að erlendum gestum á hátíðina munu fjölga á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka