42% vilja ekki mosku í Sogamýri

Vinningstillaga að útliti nýju moskunnar.
Vinningstillaga að útliti nýju moskunnar.

Rúmlega 42% þeirra sem tóku þátt í nýlegri könnun sem unnin var af Gallup segjast frekar, mjög eða alfarið andvígir byggingu mosku í Sogamýri í Reykjavík. Tæplega 22% segjast frekar, mjög eða alfarið hlynntir byggingu hennar á þeim stað, en um 36% segjast hvorki andvíg né hlynnt byggingu hennar á þeim stað.

Þegar ástæður eru skoðaðar fyrir andstöðu fólks við byggingu moskunnar nefna flestir, eða 39,3%, staðsetninguna. 14,1% svöruðu „á ekki heima hér,“ 12,7% segja „vil ekki mosku,“ 7,2% svara „er á móti múslimatrú“ og 7% svöruðu „kristin þjóð.“

Flestir þeir sem segjast hlynntir byggingu mosku í Sogamýri nefndu trúfrelsi, eða 42,4%. Þá sögðu 29,1% að trúfélög ættu rétt á bænahúsi og 20,8% nefndu jafnræði.

Talsverður munur er á skoðunum fólks eftir aldri og menntun, stjórnmálaskoðun sem og búsetu, en munurinn er minni og ekki marktækur þegar kemur að kyni og fjölskyldutekjum. Í flestum flokkunum er fjöldi þeirra sem segjast hvorki né vera hlynnt eða andvíg byggingu stærstur, eða á bilinu 30-40%

Yngra fólk er jákvæðara fyrir byggingu mosku í Sogamýri en þeir sem eldri eru. Þannig eru fleiri á aldursflokkunum 18-24 ára og 25-34 ára sem eru hlynntir byggingu moskunnar en eru andvígir. Í eldri aldursflokkum er andstaðan hins vegar meiri og mest hjá þeim sem eru 65 ára og eldri. Í þeim aldursflokki eru 62% andvíg byggingunni, en um 10% sem eru hlynnt.

Þegar kemur að búsetu eru íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og í öðrum sveitarfélögum á landsbyggðinni mest andvígir byggingu mosku í Sogamýri, eða 46% í báðum hópum. Andstaðan er nokkru minni í Reykjavík, eða 37%. Hlutfall þeirra sem eru hlynntir byggingunni og búa í Reykjavík er 28%. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er hlutfallið 21% og í öðrum sveitarfélögum er segjast 17% hlynntir byggingu mosku á þessum stað.

Meðal þeirra sem hafa háskólapróf segjast 30% vera hlynntir byggingunni, en 30% á móti henni. Fleiri eru hins vegar andvígir henni sem eru með grunnskólapróf eða framhaldsskólapróf sem hæsta menntastig. Eru 51% þeirra sem eru með grunnskólapróf sem hæsta menntastig andvígir byggingunni, en aðeins 14% hlynnt.

Af kjósendum í Reykjavík eru það stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru mest andvígir byggingu moskunnar í Sogamýri. 70% þeirra eru frekar, mjög eða alfarið andvígir áformunum. Meðal kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata eru færri andvígir en eru hlynntir og eru kjósendur Samfylkingarinnar hlynntastir málinu, eða 51%. Meðal þeirra sem ætla að kjósa annað eða ætla að skila auðu er andstaðan meiri en meðal þeirra sem eru hlynntir.

45,8% þeirra sem spurðir voru sögðust hlynntir því að halda íbúakosningu um byggingu moskunnar í Sogamýri, en þá er miðað við svör allra landsmanna. 25,2% svöruðu hvorki né og 29% voru andvígir slíkri kosningu.

Úrtakið var 2624 einstaklingar á öllu landinu sem voru valdir af handahófi úr viðhorfshópi Gallup. Svöruðu 1428 könnuninni, eða 54,4% og tóku 1371 afstöðu í henni. Könnunin var unnin fyrir Árna Má Jensson, en hann skrifaði aðsenda grein í dag í Morgunblaðið um niðurstöður könnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert