Ekki nóg að segja sanngjarnt að hækka laun

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

„Vandinn er alltaf sá að þegar ein stétt er í hnút með sín mál þá þarf hún að rökstyðja sínar kröfur og það er ekki nóg að rökstyðja með því að segja það sanngjarnt að launin séu önnur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þegar hún var spurð út í stöðuna í kjaradeilu ljósmæðra og orð Bjarna Benediktssonar fjármalaráðherra sem hann lét falla í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær. Hann sagði kröfur ljósmæðra vera um 20 prósentum hærri en það sem ríkið væri tilbúið að samþykkja og að ekki væri hægt að hækka laun ljósmæðra margfalt meira en annarra hópa.

Vöktu ummælin upp mikla reiði meðal ljósmæðra og Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði þetta „enn eitt kjaftshöggið“ í samtali við mbl.is. Hún sagði þetta „skammarlega kveðju frá fjármælaráðherra“ á alþjóðlegum degi ljósmæðra sem var í gær. Þá yrði aldrei skrifað undir samning með 4,21% launahækkun og engum leiðréttingum.

Þegar Svandís var spurð af þáttastjórnanda í morgun hvort henni þætti rökstuðningur ljósmæðra hafa verið ófullnægjandi, sagði hún að henni verið ekki kunnugt um hver rökstuðningurinn væri. „Það varð breyting á milli funda og kröfurnar urðu umtalsvert hærri samkvæmt fréttum. Ég tel að það sé hægt að koma til móts við þennan hóp séu rökin nægilega skýr og sterk.“

Svandís benti á það að deilan sem slík væri ekki inni hennar borði, heldur borði fjármálaráðherra. Hún hafi þó séð ástæðu til að tjá sig um málið í þinginu í vikunni þegar Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir umræðu, enda þyrfti hún að glíma við afleiðingar þess ef ekki semst. „Þess vegna sagði ég að það væri mitt hlutverk að liðka til og hugsa út fyrir boxið,“ sagði Svandís, en hún sagðist jafnframt styðja baráttu ljósmæðra.

„Ég er hinsvegar ekki með það á mínu borði hverjar þeirra kröfur eru í kjarasamningunum og þá getur maður spurt hvað er hægt að gera annað en beinlínis það sem hlýst af kjarasamningum sem slíkum. Þá er það eitthvað sem lýtur að vinnustöðum ljósmæðra.“ Það væri þá verið að tala um vinnutíma og vaktafyrirkomulag og hvernig stofnanirnar gætu komið til móts við starfsumhverfi þessarar stéttar.

Spurð frekar út í sinn stuðning við baráttu ljósmæðra sagði hún hann lúta að því sem hún gæti látið af sér leiða í gegnum stofnanirnar sjálfar. Hún benti jafnframt á að verkefnið væri partur af stærra viðfangsefni varðandi heilbrigðisstéttir almennt og stöðu kvennastétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert