Óþarfi að breyta keppninni

Ari Ólafsson og Þórunn Erna Clausen eru nýkomin heim frá …
Ari Ólafsson og Þórunn Erna Clausen eru nýkomin heim frá Lissabon í Portúgal þar sem Eurovision fór fram. Ljósmynd/K100

Þórunn Erna Clausen, höfundur íslenska Eurovision lagsins „Our choice“, og Ari Ólafsson, flytjandi lagsins, eru nýkomin heim frá Lissabon í Portúgal þar sem Eurovision fór fram. Þau spjölluðu við Huldu og Hvata um keppnina í ár og umræðuna á Íslandi eftir að lagið komst ekki áfram úr fyrri undankeppninni. Þórunn tekur undir orðalagið að umræðan sé „árlegt tuð“ Íslendinga og nefnir hana „Post Eurovision Depression“. 

Íslenska forkeppnin hefur þróast til betri vegar

Ari og Þórunn Erna eru sammála um að íslenska forkeppnin hafi þróast til betri vegar undanfarin ár og óþarfi sé að breyta henni eins og nú er rætt um. Þetta sé vinsælt sjónvarpsefni og keppnin hafi stækkað og orðið sífellt flottari á milli ára. Hún segir að undanfarin ár hafi sviðsetningin samt breyst, með sínum kostum og göllum, en nú sé RÚV með leikstjóra og danshöfund á sínum vegum fyrir öll atriðin. „Sem listamaður er rosa gaman að fá að ráða því sjálfur hvernig atriðið er sviðsett, án þess að þurfa kannski að eiga auka pening til að leggja í það,“ segir Þórunn sem virðist geta hugsað sér að breyta þessum þætti til framtíðar. 

Ekki alltaf innistæða fyrir gagnrýninni

Þórunn Erna segir gagnrýnina alltaf koma eftir hverja keppni og að þau hafi búið sig undir hana. Hún segir þó stundum ekkert að marka athugasemdir miðað við úrslit keppninnar. Sem dæmi nefnir hún það að lag Salvador Sobral frá því í fyrra hafi fengið mjög neikvætt umtal í Portúgal og margir hafi ekki haft trú á því að það kæmist áfram úr undankeppni. Salvador sigraði hinsvegar keppnina í fyrra líkt og frægt er orðið.

Áhuginn liggur erlendis 

Þórunn Erna og Ari segjast bæði hafa fengið góð viðbrögð í ferðinni og keppninn sjálfri. Því muni þau taka gleðina út úr verkefninu en bæði stefna á verkefni erlendis í kjölfar keppninnar. Þórunn segist hafa fengið boð um að taka þátt í lagasmiðjum og Ari hyggur á flutninga til London á næstunni. Ari segir þetta hafa verið frábært tækifæri fyrir sig og hann standi uppi sáttur eftir mikla áskorun við flutning lagsins. „Þetta er erfiðasta lag sem ég hef nokkurn tímann sungið,“ segir Ari hlæjandi. Hann segist hafa vaknað upp með bros á vör daginn eftir keppnina, eftir að hafa sungið fyrir 250 milljónir manna. Verkefnið hafi verið hans stærsta áskorun til þessa. 

Viðtalið má nálgast hér í heild. 

Þórunn Erna Clausen, höfundur íslenska Eurovision lagsins „Our choice“, og …
Þórunn Erna Clausen, höfundur íslenska Eurovision lagsins „Our choice“, og Ari Ólafsson, flytjandi lagsins. Ljósmynd/K100
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert