Atli Helga öðlast málflutningsréttindi á ný

Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfu Atla um að öðlast málflutningsréttindi á …
Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfu Atla um að öðlast málflutningsréttindi á ný til greina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Atli Helgason mun að óbreyttu öðlast málflutningsréttindi sín að nýju, en Héraðsdómur Reykjavíkur hefur tekið kröfu hans þar að lútandi til greina. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is

Fréttablaðið greindi fyrst frá. Helgi segir  að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það hvort ákæruvaldið muni áfrýja niðurstöðunni til Landsréttar.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins lagði Atli fram kröfu um að öðlast málflutningsréttindi sín að nýju eftir að dómur í máli Róberts Downey Hreiðarssonar um endurheimt málflutningsréttinda var kveðinn upp fyrir um ári.

Í þeim dómi kom fram fyrir Hæstarétti sú túlkun að í þeim tilvikum sem Lögmannafélagið komi ekki að sviptingu réttinda sé óþarft að leita umsagnar félagsins um endurheimt þeirra, en þegar Atli sóttist eftir því að fá málflutningsréttindi sín á nýjan leik í kjölfar þess að hann fékk uppreist æru í lok ársins 2015 lagðist Lögmannafélagið gegn því með formlegum hætti.

Í kjölfarið afturkallaði Atli kröfu sína um að öðlast málflutningsréttindi sín á ný. Taldi hann á þeim tíma réttindi sín vera minna virði en þjáningar aðstandenda Einars Arnar Birgissonar, sem hann myrti árið 2000.

Atli var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að hafa orðið Einari Erni að bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert