Ellefu skráningar í Árneshrepp felldar niður

Hópur fólks skráði lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna …
Hópur fólks skráði lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna tímabili. mbl.is/Golli

Þjóðskrá Íslands hefur fellt niður ellefu af átján lögheimilisskráningum samkvæmt tilkynningum um flutninga í Árneshrepp á Ströndum sem gerðir voru á tímabilinu 24. apríl til 5. maí sl. Tilkynningar hafa verið sendar viðkomandi um ákvörðunina.

Í einu tilfelli til viðbótar óskaði viðkomandi einstaklingur sjálfur eftir leiðréttingu og varð Þjóðskrá við þeirri ósk. Afgreidd mál eru því tólf af átján.

Meiningar hafa verið um að lögheimilisflutningar á tímabilinu, síðustu tvær vikurnar fyrir viðmiðunardag kjörskrárstofns, hafi verið tilhæfulausir. Látið hefur verið að því liggja að ætlunin hafi verið að hafa áhrif á afstöðu hreppsnefndarinnar til byggingar Hvalárvirkjunar.

Yfirgnæfandi líkur á fastri búsetu annars staðar

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands, segir í samtali við mbl.is að Þjóðskrá hafi talið fullnægjandi gögn hafa legið til grundvallar ákvörðun um málin ellefu, en hún vill þó ekki fullyrða um þau sex sem eftir standa.

„Ákvörðunin hefur þau áhrif að við viðkomandi einstaklingar verða skráðir aftur með lögheimili þar sem þeir voru skráðir áður en þeir sendu okkur tilkynningu um flutning lögheimilis,“ segir Ástríður.

Spurð á hvaða forsendum ákvarðanirnar séu teknar svarar hún að málin séu ólík. Þjóðskrá óskaði aðstoðar lögreglu við rannsókn málsins líkt og áður hefur komið fram. Lögregluskýrslur voru meðal þeirra gagna sem byggt var á.

„Það voru taldar yfirgnæfandi líkur á að þetta fólk hefði ekki fasta búsetu á viðkomandi stöðum í skilningi laga um lögheimili. Þetta byggir á þeim gögnum sem lágu fyrir, m.a. lögregluskýrslum. Það er misjafnt hvað liggur fyrir í hverju máli, en eins og í öllum málum þá byggir þetta á tilkynningum og upplýsingum frá aðilum málanna og utanaðkomandi upplýsingum einnig, t.d. skýrslum lögreglu,“ segir hún.

Hreppsnefndin gefur út endanlega kjörskrá

Í þeim sex tilvikum sem eftir standa voru bréf um rannsókn Þjóðskrár á lögheimilisflutningunum send síðar og/eða gagnaöflun stendur enn yfir. Frestur aðila til að koma að gögnum í þeim málum er ekki liðinn og ákvörðun um þau mál verður því tekin eftir helgi.

Hreppsnefnd Árneshrepps tekur endanlega ákvörðun um kjörskrána, en á hreppsnefndarfundi á miðvikudag var ákveðið að samþykkja kjörskrá miðað við kjörskrárstofn Þjóðskrár með fyrir vara um að rannsókn stofnunarinnar á lögheimilisflutningum gæfi tilefni til breytinga.

„Okkar verkefni í þessu samhengi lúta að skráningu lögheimilis og að gefa út kjörskrárstofn sem miðast við ákveðinn dag, 5. maí. Allar mögulegar breytingar á kjörskránni verða að fara fram á vegum sveitarstjórnar,“ segir Ástríður.

mbl.is