Nauðgaði dreng undir áhrifum fíkniefna

Drengurinn var undir miklum áhrifum fíkniefna þegar honum var nauðgað.
Drengurinn var undir miklum áhrifum fíkniefna þegar honum var nauðgað. mbl.is/Kristinn

Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í máli Þorsteins Halldórssonar hefur hann verið fundinn sekur um gróf og langvarandi kynferðisbrot gegn brotaþola, sem þá var barn á viðkvæmu þroska- og mótunarskeiði, auk brota á nálgunarbanni.

Nýtti hann sér yfirburði sína vegna aldurs- og þroskamunar og tældi hann til kynferðismaka með peningum og öðrum gjöfum, auk fíkniefna og lyfja. Hann er einnig fundinn sekur um nauðgun, með því að hafa í allt að þrjú skipti haft endaþarmsmök við brotaþola þegar hann gat ekki spornað við þeim sökum áhrifa fíkniefna og lyfja.

Þorsteinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa ít­rekað brotið gegn nálg­un­ar­banni sem hann sætti gagn­vart drengn­um á sex mánaða tíma­bili í fyrra. Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Þorsteini frá því í janú­ar kemur fram að hann sæti nálg­un­ar­banni gagn­vart öðrum dreng vegna meintra kyn­ferðis­brota og áreit­ni.

Meðal gagna málsins voru Snapchat-samskipti þeirra tveggja, en lögregla sótti meðal annars um 800 skjáskot úr síma brotaþola. Sími Þorsteins var einnig afritaður og þar voru meðal annars myndir og myndbönd af getnaðarlim, rassi og endaþarmi á ungum manni ásamt mökum Þorsteins og brotaþola.

Fékk lyf og fíkniefni í skiptum

Segir í dómnum að á einu myndskeiðanna megi heyra brotaþola lofa Þorsteini að klára öll „100 skiptin“ fyrir áramót gegn því að hann útvegi honum Dexomat. Bæði brotaþoli og Þorsteinn viðurkenndu fyrir dómi að með „skiptum“ væri átt við kynmök.

Dómari segir í niðurstöðu sinni að við lestur á Snapchat-samskiptum þyki hafið yfir allan vafa að Þorsteinn átti mun oftar frumkvæði að kynmökum og tældi hann drenginn með peningum og fíkniefnum. Fram kemur í samskiptunum að um hafi verið að ræða meðal annars kannabis, MDMA og Oxycodon. Gegn peningum og fíkniefnum krafðist Þorsteinn kynmaka og segir dómurinn að hann hefði látlaust verið í samskiptum við drenginn til þess að krefjast þeirra.

Misnotaður í annarlegu ástandi

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Þorsteinn hitti brotaþola 6. janúar síðastliðinn og að brotaþoli hafi verið undir miklum áhrifum. Sagðist Þorsteinn vera að reyna að hjálpa drengnum, en fram kemur í dómnum að frásögn hans er talin ótrúverðug á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins svo sem upptaka úr öryggismyndavélum.

Talið er að almennt aðgerðaleysi Þorsteins hafi bent til þess að honum hugnaðist neysla brotaþola og bjargarleysi hans. Þá hefur Þorsteinn notfært sér annarlegt ástand drengsins til þess að nauðga honum þrisvar. Einnig er talið að Þorsteinn hafi útvegað brotaþola ýmis efni.

Þegar drengurinn kom á neyðarmóttöku LSH 11. janúar voru tekin þvag- og blóðsýni. Mældist mikið magn af Alprazólam, Tramadól, MDMA og kannabis. Við leit í bifreið Þorsteins fannst meðal annars lyfið Alprazólam, sem ávísað hafði verið á hann.

Þorsteinn var dæmdur til 7 ára fangelsisvistar og til að greiða brotaþola 3,5 milljónir króna í skaðabætur. Dómari segir í niðurstöðu sinni að Þorsteinn eigi sér engar málsbætur, en Þorsteinn hyggst áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert