Grisjun framundan í ferðaþjónustunni

Bjarnheiður hefur mestar áhyggjur af því að samdráttur í vexti …
Bjarnheiður hefur mestar áhyggjur af því að samdráttur í vexti ferðaþjónustu hafi afleiðingar í landsbyggðunum. mbl.is/RAX

Farið er að hægja verulega á vexti ferðaþjónustunnar hér á landi og fyrirtæki merkja samdrátt frá því í fyrra. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við blaðamann mbl.is að til skamms tíma hafi hún talsverðar áhyggjur af stöðunni og þá sér í lagi stöðu ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

„Þetta getur orðið sársaukafullt. Við erum að horfa á það að ferðamenn í sumar verði eitthvað færri og þegar ástandið er svona með verðlagið hef ég persónulega mestar áhyggjur af landsbyggðinni, að ferðamennirnir muni ekki fara eins mikið út á land vegna þess að það er dýrara eða þá að þeir eru hérna styttra og hafa ekki tíma til að fara út á land. Mínar áhyggjur eru þar, úti á landi,“ segir Bjarnheiður, sem hélt erindi á morgunfundi Isavia á Hótel Nordica í morgun.

Á fundinum kynnti Isavia uppfærðar spár um farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli, en útlit er fyrir að ferðamenn með Keflavíkurflugvöll sem lokaáfangastað verði færri alla þrjá sumarmánuðina en þeir voru í fyrra.

Í máli hennar kom fram að líklega væri „grisjun“ framundan innan ferðaþjónustunnar og að aðilar sem ekki hafi burði til að takast á við minnkandi vöxt ferðamannastraumsins verði fyrstir að víkja.

„Það gerist alltaf þegar eitthvað gengur vel, þá fara margir af stað, sumir hoppa á milli atvinnugreina sem ganga vel og að sjálfsögðu er fullt af svoleiðis aðilum, sem hafa ekki haft það sem til þurfti og að sjálfsögðu munu þau grisjast frá fyrst. Svo eru allskonar hagræðingaraðgerðir og sameiningar í loftinu, sem er kannski eðlilegt líka, þegar greinin hefur vaxið svona hratt,“ segir Bjarnheiður.

Gengið, launakostnaður og neikvætt umtal

Í erindi sínu í morgun nefndi hún þrjár meginástæður fyrir því að samdráttur væri að verða í vexti ferðaþjónustunnar hér á landi. Sú fyrsta og ef til vill sú veigamesta er hátt gengi krónunnar.

„Ísland er orðið dýrasta land í heimi samkvæmt sumum mælingum, sem er mjög vafasamur heiður sem ég held að ekkert ríki vilji endilega, en það er stimpillinn sem við erum með núna,“ segir Bjarnheiður.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækjanna hefur líka þyngst. Launakostnaður hefur vaxið mest hér á Norðurlöndunum, eða um að meðaltali 6,6% á ári frá árinu 2010. Styrking krónunnar hefur síðan gert samkeppnina við nágrannalöndin enn erfiðari.

„Þetta verður ennþá alvarlegra þegar launakostnaðurinn er reiknaður yfir í evrur, því að ferðaþjónustufyrirtækin eru jú að selja í erlendri mynt og náttúrlega mikið í evru. Þar hefur launakostnaður hækkað um þá sjokkerandi tölu, 113%, frá 2010,“ segir Bjarnheiður og bendir á að í Noregi sé hækkun launakostnaðar í evrum einungis 6,5%.

Þriðja ástæðan er svo neikvæð umfjöllun um ferðamennsku hérlendis, en erlendir miðlar hafa greint frá ótrúlegum veldisvexti ferðamennskunnar og áhrifa hans á samfélagið og innviði hérlendis. Þessi umfjöllun hefur verið villandi í mörgum tilfellum, að sögn Bjarnheiðar.

Hún nefnir að fréttir um t.d. um hátt verð eða okur á einstaka vörum hjá einstaka söluaðilum, rati alla leið í erlenda miðla. Því fylgi því ábyrgð að tjá sig um málefni ferðaþjónustunnar. 

„Þetta er náttúrlega gott stöff í fjölmiðlaumfjöllun, að tala um það að það sé massatúrismi hér og stjórnleysi og það sé allt í vitleysu hérna. Það hefur verið að gera okkur erfitt fyrir.“

mbl.is